Haraldur Geir Eðvaldsson slökkviliðsstjóri Múlaþings segir í samtali við fréttastofu að útkall hafi borist um klukkan 13 í gær. Þegar slökkvilið mætti á vettvang var fjárhúsið alelda. Slökkviliði tókst að koma í veg fyrir að eldur bærist í vélarskemmu sem stóð við hlið fjárhússins, en bæði fjárhúsið og sambyggð hlaða brunnu til kaldra kola.
Um 250 kindur og tíu til tuttugu geitur voru inn í fjárhúsinu þegar eldurinn kom upp og segir Haraldur að ekki hafi verið nokkur leið að bjarga þeim.
Slökkviliðið lauk vinnu á vettvangi um klukkan 22 í gærkvöldi en Haraldur segir mikið af heyi hafa verið í hlöðunni sem gerði aðstæður erfiðar.
Ekki er vitað um eldsupptök á þessu stigi en lögregla fer með rannsókn málsins.