ÍA tók á móti Grindavík í Akraneshöllinni er liðin mættust í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Staðan var lengi vel markalaus en undir lok leiks skoraði ÍA tvö mörk og vann leikinn 2-0. Daníel Ingi skoraði síðara markið, hans fyrsta í meistaraflokki.
Segja má að undirbúningur hins 15 ára gamla Daníels Inga, sem er sonur Jóhannes Karls Guðjónssonar – aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hafi verið heldur óhefðbundinn. Í gær æfði Daníel Ingi með U-17 ára liði FC Kaupmannahafnar en fór svo heim á leið um kvöldið og var mættur í leik dagsins.
Daníel Ingi hóf leikinn á bekknum en kom inn á 57. mínútu líkt og Ármann Ingi Finnbogason en hann skoraði fyrra mark leiksins. Búist er við að ÍA og Grindavík verði í toppbaráttu Lengjudeildarinnar í sumar en ÍA féll úr Bestu deildinni síðasta sumar.
ÍA er í 3. sæti riðils 1 í Lengjubikarnum með sex stig að loknum 4 leikjum. Grindavík er í 5. sæti án stiga að loknum 3 leikjum.