Í gær lauk þriðju umræðu um útlendingafrumvarpið á Alþingi. Atkvæðagreiðsla um það fer fram klukkan 17:15 í dag en verði það samþykkt verður það að lögum frá Alþingi.

Vegna þess boðaði hópur flóttamanna frá Írak sem hefur verið hér á landi í yfir fimm ár til mótmæla við Alþingishúsið í miðbæ Reykjavíkur. Mótmælendur röðuðu sér upp fyrir framan húsið með skilti með skilaboðum á borð við „Engin manneskja er ólögleg“, „Við höfum ekkert að fara“ og „Ekki lögleiða mannréttindabrot“.
„Þessi lög fyrir okkur þýða ekkert annað en dauðinn. Við skiljum ekki, hvar er mannúðin? Við viljum bara lifa eðlilegu lífi í þessu landi, fá tækifæri til að hefja líf okkar,“ er haft eftir hópnum á Facebook-viðburði fyrir mótmælin.