Í tilkynningu frá kínverska utanríkisráðuneytinu segir að heimsóknin standi yfir frá mánudeginum 20. mars til miðvikudagsins 22. mars.
Rússneska fréttaveitan Tass segir frá því að Xi og Pútín muni ræða samstarf ríkjanna og undirrita fjölda mikilvægra tvíhliða samninga og yfirlýsinga.
Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir að forsetarnir muni skiptast á skoðunum og ræða svæðisbundin málefni. „Tilgangur heimsóknarinnar er að styrkja enn frekar tvíhliða traust ríkjanna,“ segir talsmaðurinn.
Xi sór fyrr í vikunni embættiseið sem forseti landsins og er þar með hafið hans þriðja fimm ára kjörtímabil. Hann hefur kallað eftir því að Kína láti meira til sín taka á alþjóðasviðinu.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og fleiri ríkjum á Vesturlöndum hafa áhyggjur af því að Kínverjar ætli sér að aðstoða Rússa þegar kemur að innrás þeirra í Úkraínu, meðal annars varðandi vopnasendingar til Rússland.
Kínverjar hafa til þessa ekki viljað fordæma innrás Rússa í Úkraínu en Kínverjar sátu hjá þegar innrásin var nýverið fordæmd á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Þeir Xi og Pútín hafa átt tvíhliða fundi 39 sinnum.