Umrædd rannsókn var unnin fyrir Club of Rome og samkvæmt niðurstöðunum mun fjöldi íbúa heimsins ná hámarki í 8,8 milljörðum fyrir miðja þessa öld. Áður var talið að fjöldinn myndi fara í 9,7 milljarða um miðja öldina og halda áfram að aukast í nokkra áratugi.
Vísindamennirnir segja að mögulegt sé að ná toppinum fyrr ef stjórnvöld taka afgerandi skref til að auka menntun og hækka meðaltekjur.
Ef spár þeirra ná fram að ganga eru það góðar fréttir fyrir náttúruna, þar sem að draga mun úr ágangi á umhverfið og loftslagið þegar fólki fer aftur að fækka. Þá mun það einnig draga úr pólitískri og samfélagslegri spennu.
Höfundar skýrslunnar vara þó við því að lækkandi fæðingartíðni muni ekki leysa þann vanda sem steðjar að jörðinni. Þá mun fólksfækkunin skapa ný vandamál, til að mynda fækkun á vinnumarkaði og fjölgun aldraðra.
Ben Callegari, einn höfunda skýrslunnar, segir tilefni til bjarsýni en með fyrirvara.
„Þetta gefur okkur tilefni til að ætla að mannfjöldasprengjan springi ekki en við stöndum engu að síður andspænis miklum áskorunum frá umhverfissjónarmiði. Við munum þurfa að leggja mikið í að taka á ofneyslu og offramleiðslu, sem eru stærra vandamál en mannfjöldaþróunin,“ segir hann.
Umrædd skýrsla, sem unnin var af bandalaginu Earth4All, gerir sem fyrr segir ráð fyrir að mannfjöldinn toppi í 8,8 milljörðum árið 2046 og dragist saman í 7,3 milljarða fyrir árið 2100.
Höfundar skýrslunnar segja þetta ekki munu leiða til algjörra umhverfis- og loftslagshamfara en líkurnar á svæðisbundnu samfélagshruni muni aukast til 2050, vegna aukinnar misskiptingar innan og á milli samfélaga.
Bjarsýnni spá, sem gerir ráð fyrir aukinni skattlagningu auðugustu einstaklinga heims til að fjárfesta í jöfnuði, gerir ráð fyrir að mannfjöldinn gæti toppað í 8,5 milljörðum árið 2040 og dregist saman í 6 milljarða fyrir árið 2100.
Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.