Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Þar kemur fram að smíði vefsins hafi verið boðin út af Ríkiskaupum á síðasta ári og að um sé að ræða „þróunarsamstarf sem nær til vinnu við hönnun, smíði, uppsetningar og innleiðingar á fjölbreyttum gagnatengingum og veflausnum.“
Að sögn Hauks Haukssonar, samskiptastjóri á Veðurstofu Íslands, hefur verkefnið lengi verið í undirbúningi.
„Við viljum vanda til verksins því vefurinn og aðrar stafrænar lausnir eru ein mikilvægustu tólin þegar kemur að þjónustu við okkar notendur sem er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Notendur hafa lengi kallað eftir betri lausnum á okkar vef og smíði á nýjum vef er mikilvægur áfangi í að bæta þjónustu Veðurstofunnar,“ segir Haukur.
Origo og Metall sjá um vefinn
Sérfræðingar Origo í Stafrænni vegferð, ásamt hönnunarstofunni Metall, tóku saman þátt í útboði Veðurstofunnar. Teymið lagði til nýjan vef þar sem aukin virkni og hönnun fær að njóta sín. Núverandi vefur hefur verið starfræktur frá árinu 2007 og verkefnið því margþætt.
„Vefur Veðurstofunnar, vedur.is er einn ástsælasti vefur landsins og er teymið spennt að taka þátt í því að koma vefnum á næsta stig“ segir Kjartan Hansson forstöðumaður Stafrænna lausna hjá Origo.
„Við vitum að vefurinn gegnir mikilvægu hlutverki sem varðar alla Íslendinga, og er hluti af almannavörnum landsins. Hann þarf að þola svakalegt álag á skömmum tíma í stórum náttúruváratburðum eins ofsaveðri, jarðskjálftum og eldgosum,“ bætir hann við.