Skoðun

Tjáningar­frelsið og mál­efni trans barna og ung­menna

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Það má tjá skoðanir á hver sé þróun málefna trans barna og ungmenna hér á landi. Margir veigra sér þó við því. Hvers vegna? Væntanlega er ein ástæða þess að sú hætta er raunveruleg að sá sem tjái skoðanir sínar um málaflokkinn verði í framhaldinu brennimerktur á opinberum vettvangi, svo sem dæmi eru um. Þessi tilhneiging til skautunar í opinberri umræðu um málefni trans fólks er ekki einskorðuð við Ísland, sbr. t.d. skýrslu norskrar sérfræðingarnefndar um tjáningarfrelsið sem kom út 15. ágúst 2022 (NOU 2022:09, bls. 204).

Eru áhrif kynhormónabælandi meðferða afturkræf?

Þriðjudaginn 18. apríl sl. var birt í Morgunblaðinu grein eftir formann Trans Íslands og verkefnastjóra hjá samtökunum ’78 um heilbrigðisþjónustu trans barna og ungmenna. Um margt er greinin fróðleg og málefnaleg en í henni var m.a. eftirfarandi fullyrt:

„Mörg trans börn sem komin eru á kynþroskaaldur kjósa, í samráði við lækna og foreldra, að nota hormónabælandi lyf sem halda aftur af kynþroska. Áhrif þeirra eru afturkræf.“

Þótt ég sé ekki menntaður í læknavísindum er ástæða til að staldra hér við þar eð við könnun á nýlegum og traustum heimildum má efast um sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar að áhrif kynhormónabælandi meðferða við þessar aðstæður sé afturkræf.

Á hverju eru efasemdirnar reistar?

Svo sem rakið er í grein minni í Morgunblaðinu 7. júlí 2022 var talið í skýrslu sænskra sérfræðinga frá febrúar 2022 að áhættan af notkun kynhormónabælandi meðferða í tilviki ungmenna væri meiri en mögulegur ávinningur af slíkri meðferð. Þessi skýrsla kom út á vegum opinbers rannsóknarráðs í málefnum tengd heilsu og velferð (s. Socialstyrelsen) og sambærileg stofnun í Noregi (n. Ukom), birti skýrslu 9. mars sl. þar sem niðurstaðan um sama álitaefni var sambærileg og í sænsku skýrslunni.

Mælt var með því í norsku skýrslunni (n. Pasientsikkerhet for barn og unge með kjønnsinkongruens) að hormónameðferð við þessar aðstæður væri skilgreind sem tilraunarlyfjagjöf (n. utprøvende behandling).

Í febrúar 2022 fengu ensk heilbrigðisyfirvöld í hendur bráðabirgðaskýrslu Dr. Cass (e. The Cass Review) þar sem m.a. var lagt til að hormónabælandi meðferð fyrir börn undir 16 ára yrði skilgreind sem tilraunarlyfjagjöf. Ensk heilbrigðisyfirvöld hafa á grundvelli athugasemda Dr. Cass unnið að breyttu verklagi.

Lokaorð

Það er fyllsta ástæða hér á landi að tryggja vandaða umgjörð um málefni transfólks. Á hinn bóginn er mikilvægt að raddir efasemda fái að komast að, ekki síst þegar kemur að viðurhlutamiklum læknisfræðilegum inngripum í líf barna og ungmenna, svo sem þeirra sem felast í notkun hormónabælandi lyfja til að halda aftur af kynþroska.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×