Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, er í miklum samskiptum við fjölskyldu hins látna og hitti hana síðast í dag. Móðir hans og systir búa á Íslandi en bróðir hans og tveggja ára dóttir búa í Póllandi. Hinn látni flutti hingað til lands til að afla sér tekna til að geta séð fyrir dóttur sinni.
Hér að neðan er hægt að horfa á fréttir Stöðvar 2 um málið en athugið að staða ungmennanna fjögurra hefur breyst frá því fréttin fór í loftið. Nýjasta í málinu er að sautján ára stúlka, hefur verið látin laus úr gæsluvarðhaldi. Verjandi stúlkunnar kærði gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms og Landsréttur felldi hann úr gildi um sexleytið. Nítján ára sakborningur hefur játað að hafa orðið manninum að bana. Upphaflega voru fjórir í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
„Allir eru mjög slegnir yfir þessu. Ekki aðeins fjölskyldan. Þetta er eitthvað sem er algjörlega óviðunandi og enginn hefði getað ímyndað sér að þetta gæti gerst í þessu annars rólega landi. Ein af ástæðunum fyrir því að Pólverjar koma til Íslands er að landið telst öruggt,“ bendir sendiherrann á.
Pólska samfélagið á Íslandi sé í áfalli vegna málsins.
„Við erum næstum því 30 þúsund og þetta var áfall fyrir okkur. Við bíðum eftir lokaniðurstöðu lögreglunnar. Mikilvægast er að vita ástæðu glæpsins. Ég legg áherslu á að aðförin var hrottafengin og þess ber að geta að manndrápið var tekið upp á myndband,“ segir Pokruszyński. Málið allt sé hryllilegt.
Pokruszyński vildi ekki fullyrða að Pólverjar á Íslandi óttuðust um öryggi sitt. „En auðvitað eftir svona merki um hatur þá held ég að við munum eflaust vera mun skynsamlegri eftir þennan harmleik.“
Tekið skal fram að lögregluyfirvöld hafa meðal annars sagt í yfirlýsingu að hingað til bendi ekkert til þess að þjóðerni þess látna hafi haft með málið að gera.