Stuðningsmenn PSG eru ósáttir við gang mála hjá frönsku meisturunum. Þeir söfnuðust saman fyrir höfuðstöðvar félagsins í gær og kröfðust þess að stjórnin myndi segja af sér.
Annar hópur kom saman fyrir utan heimili Neymars og sögðu honum að koma sér í burtu frá PSG. Félagið hefur nú slegið á puttana á þessum stuðningsmönnum.
Confirmation that this footage from @ParisienTimes is genuine - PSG supporters bring their Neymar, get lost! chanting directly to the Brazilian s home in Paris. pic.twitter.com/7HT6Fuh92y
— Get French Football News (@GFFN) May 3, 2023
„PSG fordæmir móðgandi og óásættanlega framkomu lítils hóps stuðningsmanna á miðvikudaginn. Burtséð frá ólíkum skoðunum, þá er ekkert sem réttlætir svona framkomu. Félagið styður alla leikmenn og starfsfólk sem verður fyrir barðinu á svona framkomu,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.
PSG tapaði fyrir Lorient um helgina og er nú aðeins með fimm stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar.
PSG setti Lionel Messi síðan í tveggja vikna bann fyrir að fara til Sádí-Arabíu í leyfisleysi. Í gær bárust svo fréttir af því að Argentínumaðurinn myndi yfirgefa PSG eftir tímabilið.
Neymar hefur leikið 29 leiki með PSG í öllum keppnum á tímabilinu, skorað átján mörk og lagt upp sautján.