Bænastund verður í Fossvogskirkju síðdegis í dag. Kristófer Gajowski, fulltrúi fjölskyldunnar, verður meðal þeirra sem tekur til máls í athöfninni. Þá mun Iva Marín syngja og Guðný Einarsdóttir spilar á orgel.
Kristófer segir atburðina hafa fengið mikið á fjölskyldu Barlomiej. Það sé alltaf sérstaklega sorglegt þegar foreldrar þurfi að skipuleggja útför fyrir börnin sín. Það eigi að vera á hinn veginn.
Hann þakkar fyrir þann hlýhug sem sýndur hefur verið fjölskyldunni. Til stendur að flytja jarðneskar leifar Barlomiej til Póllands þar sem önnur athöfn mun fara fram. Mikill kostnaður sé við útfarir eins og fólk viti en þökk sé framlagi fólks hafi fjölskyldan ekki þurft að koma að þeim kostnaði.

Þá var stofnaður framtíðarreikningur fyrir tveggja ára dóttur mannsins. Kristófer þakkar allan þann stuðning sem sýndur hefur verið fjölskyldunni.
Þrír eru í haldi vegna málsins. Átján ára piltur sætir gæsluvarðhaldi og þá eru tveir undir átján ára vistaðir í úrræði á vegum barnayfirvalda.
Fréttin var uppfærð síðdegis með mynd frá bænastundinni í Fossvogskirkju.