Þegar bókin er keypt er valið um nafn barnsins sem verður aðalsögupersónan í ævintýrinu, húðlit, hárlit og hárgreiðslu. Þá er hægt að skrifa skilaboð sem birtast síðan í bókinni. Þegar pöntun er frágengin, fer bókin í prentun og er ýmist sótt eða send heim.
„Þegar að dóttir mín var yngri bjuggum við í Danmörku og þar voru þessar bækur út um allt. Þær eru ekki aðeins vinsælar þar heldur líka fyrirferðarmiklar í auglýsingum.. Mig langaði í svona bók fyrir dóttir mína og það var þannig sem hugmyndin kviknaði á því að búa til svona bækur á íslensku, með íslenskum ævintýrum sem eru helst svolítið fræðandi,“ segir Sölvi.
Frændur og ungir feður
Meðstofnandi Sölva er frændi hans, Björgvin Smári Halldórsson. Sölvi segir þá frændur lengi hafa talað um að gera eitthvað saman og í fyrra hafi þeir síðan ákveðið að slá til með að búa til og gefa út svona sérsniðnar barnabækur.
Enda báðir orðnir feður sjálfir.
Dóttir Sölva heitir Sólrún Lilja og er fimm ára. Synir Björgvins eru tveggja og hálfs árs tvíburar sem heita Trausti og Halldór.
„Ég kynnist þessum bókum haustið 2019 þegar að ég var í meistaranámi í Danmörku. En kunni ekki dönsku og þaðan af síður dóttir mín. Reyndar fór það þannig að hún var enga stund að ná dönskunni en það tók mig lengri tíma,“ segir Sölvi og hlær.
Í samtölum við Björgvin frænda sinn fór hann að segja honum frá þessum bókum.
Sölvi kláraði námið á Íslandi, enda breytti Covid náminu í fjarnám.
Við fórum þá að tala meira um þetta því þá var Björgvin líka orðinn pabbi og strákarnir hans orðnir níu eða tíu mánaða gamlir.
Hann var því kominn á svipaðan stað og ég að kynnast þessum heimi barnabóka og lesturs.“
Sölvi segir þá frændur svo sem ekkert hafa verið að pæla alvarlega í þessu fyrr en vorið 2021 þegar þeir veltu fyrir sér hvort þeir ættu kannski að láta slag standa.
„Við ákváðum á endanum að gera þetta bara. Sem auðvitað reyndist mun flóknara en við höfðum áttað okkur á. Hugmyndin var til dæmis fyrst sú að fá teiknara til að teikna fyrstu bókina og reyna að gefa hana út fyrir jólin 2021. Sem var ekki raunhæft því teikningarnar voru ekki einu sinni tilbúnar fyrr en í febrúar 2022.“
Sölvi segir það hversu langan tíma fyrsta bókin tók og hversu margar gryfjurnar voru sem þeir frændur féllu í hafi á endanum reynst dýrmæt reynsla.
„Í dag er að taka okkur þrjá mánuði að gefa út eina bók, enda tvær í vinnslu.“

Íslensk sveit og gulur, rauður, grænn og blár
Bækurnar tvær sem nú þegar eru komnar út eru annars vegar bók til að læra litina og hins vegar ævintýri sem kennir börnunum um dýrin í sveitinni.
Fyrir fyrstu bókina studdumst við bara við litalagið sem allir þekkja: Gulur, rauður, grænn og blár… Og tökum litina í þeirri röð sem þeir eru í laginu,“ segir Sölvi og bætir við:
,,Í síðari bókinni fer söguhetjan upp í sveit og kynnist þar öllum helstu íslensku húsdýrunum og afkvæmunum þeirra.“
Tvær bækur eru síðan í vinnslu núna.
„Fyrstu tvær bækurnar eru í rauninni fyrir yngri lesendahópana. Dóttir mín er til dæmis eiginlega orðin of gömul fyrir þær bækur því hún er orðin fimm ára. Hins vegar eru bækurnar sem eru í vinnslu núna báðar fyrir hennar aldur enda hefur hún verið virkur þátttakandi í að búa til aðra ævintýrabókina með mér,“ segir Sölvi.
En hafið þið frændurnir þá bara setið saman og búið til ævintýrasögur fyrir börn?
„Já,“ svarar Sölvi og hlær.
„Við höfum búið þessar bækur til sjálfir og til dæmis eru dýr teiknuð í sveitabókinni sem eru dýr úr sveitinni sem Björgvin þekkir því hann hreinlega tók einhverjar myndir þar til að láta teiknarann fá. Björgvin á því nokkuð mikið í þeirri bók, en ég kannski meira í ævintýrabók sem er í vinnslu núna og er fyrir eldri krakka.“
Sölvi segir pabba Björgvins, Halldór Halldórsson, líka eiga mikið í bókunum.
„Hann er mikill textasmiður og án efa orðheppnasti maður sem ég veit um.“
Í sveitabókinni eru líka sérsamdar ferskeytlur um hvert dýr.
Við leggjum áherslu á að vera með efnið íslenskt. Ekki aðeins íslensk dýr, heldur sjást líka kennileiti í teikningunum sem fólk þekkir.
Til dæmis Perlan og Hallgrímskirkja í bókinni um litina, fjöll og landslag í sveitabókinni.
Síðan erum við svo heppnir að Halldór hefur til viðbótar við alla aðra hjálp samið ferskeytlur um hvert dýr. Mér finnst einmitt svo gaman af því að lesa texta sem rímar og held að mörgum finnist það.“
Ferskeytlan um kúna hljómar til dæmis svona:
Hér er kýr um kú frá kú til kýr,
kálfur er í haga.
Nautið baular, breyskur fýr,
bölvar alla daga.

Að vakna í ævintýraheimi
Sölvi segir þá frændur fyrst og fremst vera að sinna þessu verkefni á kvöldin og um helgar.
„Enda finnst mér miklu meira gefandi að vera að stússast í þessu á kvöldin heldur en að liggja fyrir framan sjónvarpið.“
Hann segir Ævintýri.is langt frá því að vera einhver rekstur sem standi undir sér.
Það er svo sem ekki pælingin okkar í augnablikinu hvað svo sem síðar verður. Við erum báðir í fullu starfi en sinnum þessu sem áhugamáli, tölum saman daglega og erum alltaf að hittast og spá í hitt og þetta eða að fá nýjar hugmyndir. Þetta er fyrst og fremst eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt og gefandi og okkur langar til að gera.“
Sölvi segir eitt það skemmtilegasta hafa verið viðtökurnar við fyrstu bókinni.
Hún tók rosalega langan tíma í vinnslu og útgáfu og við auglýstum hana bara á Facebook og Instagram. Við vissum ekkert við hverju væri að búast. Hvort við myndum selja fimm eða fimmtíu bækur. Útkoman var sú að við seldum miklu meira en okkur óraði fyrir, sem gerði það að verkum að þar var komið fjármagn til að gefa strax út næstu bók sem kom út þremur mánuðum síðar.“
Sölvi segir líka mikla hvatningu hafa falist í því að margir sem keyptu fyrstu bókina, keyptu líka þá síðari.
„Það er svo frábært að hafa búið til eitthvað frá grunni sem að fólki líst síðan vel á. Því það að sama fólkið sé að kaupa aftur og aftur og jafnvel fleiri en eitt eintak til að gefa í jóla- eða afmælisgjafir segir mikið. Að vita að fólk sé ánægt með vöruna er mjög hvetjandi.“
En um hvað eru bækurnar sem koma út í sumar?
„Þær eru fyrir aðeins eldri börn og þau sem eru að byrja að lesa sjálf. Fyrri bókin er fróðleiksbók um dýr. Valmöguleikarnir eru aðeins fleiri því til viðbótar við að velja nafn söguhetjunnar og útlit, verður hægt að velja hæðina og aldur á barninu. Til dæmis það að gírafinn sé stærsta dýrið á jörðinni, börnin sjá sjálfa sig sem söguhetju í hæðasamanburði við dýrin sem þau eru að lesa um,“ segir Sölvi og bætir við:
„Seinni bókin er meiri ævintýrabók en þar vaknar söguhetjan upp í ævintýraheimi. Í þessum ævintýraheimi blasir við ákveðin áskorun sem söguhetjan gengur í að leysa úr. Ég get svo sem ekki farið að kjafta frá því í hverju vandamálið liggur en að minnsta kosti finnst dóttur minni þetta ævintýri svo skemmtilegt að þetta er sagan sem við erum oftast að lesa saman. Þótt í hana vanti allar teikningar og hún sé enn sem komið er bara texti í símanum mínum.“