Yfirskrift mótmælanna var Rísum upp, og samkvæmt skipuleggjendum snúast þau fyrst og fremst um forgangsröðun ríkistjórnarinnar sem hafi miðast að því að ýta undir lífskjaraskerðingu almennings.
Fréttastofa tók nokkra mótmælendur tali, og eins og sjá má í innslaginu sem fylgir fréttinni voru flestir kátir þrátt fyrir rigningu og alvarlegan undirtón.
„Ég er að mótmæla lífsafkomu unga fólksins og eldra fólks. Ég vil bara betra líf fyrir okkur, venjulega fólkið,“ sagði Sóley Erlendsdóttir.
Guðrún Lilja Thorodsen segir fáránlegt hvernig fjármálakerfið sópi öllum peningum til sín þegar fólkið í landinu eigi ekki fyrir mánaðarmótum.
„Ég er alltaf í mínus þegar ég er búin að borga reikningana mína, þetta er bara fáránlegt að vera alltaf að hækka afborganir bara til að keyra okkur aftur í að taka verðtryggð lán. Þetta er bara rugl.“

„Öll svona mótmæli hafa áhrif. Það versta er að gera ekki neitt. Fólk verður að nýta rétt sinn,“ segir Hjörtur Hjartarsson.
„Hér er bara heilmikið að"
Ragnar þór Ingólfsson, formaður VR er einn af þeim sem stóð fyrir mótmælunum. Hann var ánægður með daginn.
„Mér finnst stemningin vera bara mjög góð. Fólkið vill rísa upp, ég finn það alveg. Ég er alveg sannfærður um að ef veðrið væri betra þá hefðum við kannski fengið betri mætingu,“ sagði Ragnar og tekur fram að þau séu rétt að byrja.

„Við ætlum að koma stjórnvöldum í skilning um það að hér er ekki allt í lukkunnar standi og góðu lagi eins og ráðherrar vilja fullyrða. Hér er bara heilmikið að, og mjög alvarlegt ástand að skapast í okkar samfélagi. Um helmingur launafólks á í erfiðleikum með að ná endum saman, við munum halda áfram þar til við troðfyllum Austurvöll, segir Ragnar.“
„Þetta er bara byrjunin á nauðvörn almennings. Svo við verðum bara að sjá til, auðvitað vonar maður að það fari eitthvað að gerast, vonandi hreyfir þetta við stjórnmálamönnum.“

