Samir Tabar, stjórnarformaður rafmyntafyrirtækisins Bit Digital, tilkynnti í gær að starfsemi á Íslandi yrði aukin. Í samtali við Wall Street Journal sagði hann að fyrirtækið hefði keypt 2.500 vélar til að grafa eftir rafmynt á Íslandi. Fjárfestingin er fimm milljónir dollara, eða rúmlega 700 milljónir króna.
Bit Digital er upprunalega frá Hong Kong í Kína en er með höfuðstöðvar í New York í Bandaríkjunum og töluverða starfsemi í Kanada. Tabar sagði að fyrirtækið væri að draga saman seglin í Bandaríkjunum, einkum vegna fyrirsjáanlegra skattahækkana á rafmyntagröft þar í landi.
„Áður höfum við flutt vélarnar beint til Bandaríkjanna. En núna, í staðinn fyrir að gera það, verðum við að horfa til annarra staða vegna þessa óstöðugleika,“ sagði Tabar.
Bandaríska stjórnin hyggst leggja sérstaka skatta á öll rafmyntafyrirtæki, um 30 prósent af raforkukostnaði þeirra. Er það hluti af loftslagsstefnu Joe Biden forseta, en rafmyntagröftur er afskaplega orkufrekur og óumhverfisvænn. Þá hefur rafmyntagröftur aukið álagið á flutningskerfi raforku í Bandaríkjunum og hækkað verðið til neytenda.
Fasa út rafmyntagröft
Óvíst er hvaðan Bit Digital fær orkuna hér á Íslandi. Ívar Páll Jónsson, sérfræðingur í samskiptum og upplýsingamiðlun hjá Landsvirkjun, segir að það hafi verið opinberlega gefið út að ekki verði virkjað fyrir rafmyntastarfsemi gagnavera. Fyrir slíka starfsemi er nú eingöngu í boði skerðanleg orka, engin forgangsorka.

„Stefna Landsvirkjunar er að minnka hlutfall rafmyntagraftar umtalsvert á næstu árum, einkum vegna áhættu í rekstri gagnavera í slíkri starfsemi, en styðja fremur við vöxt gagnavera sem þjónusta annað en rafmyntagröft, svokallaða „enterprise“-starfsemi, til framtíðar,“ segir Ívar. „Gagnaversviðskiptavinir okkar eru meðvitaðir um þessa stefnu og að Landsvirkjun vilji styðja þá í að „fasa út“ rafmyntastarfsemi, en það getur tekið tíma.“
Í viðtali við Fréttablaðið fyrir einu og hálfu ári sagði Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri orkusölu hjá Landsvirkjun, að Landsvirkjun myndi ekki taka við nýjum viðskiptavinum í rafmyntagreftri og selja ekki meiri raforku til núverandi viðskiptavina.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, sagði á sama tíma í viðtali við Víkurfréttir að ekkert rafmagn væri til fyrir gagnaverin.