Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir ljóst að aðgerðir í tíu sveitarfélögum hafi mikil áhrif. Um sé að ræða neyðarúrræði til að ná fram kröfum um jöfn laun fyrir sambærileg störf.
Krafa BSRB er sú að félagar þeirra fái sömu laun og samið hefur verið um fyrir aðra starfsmenn sem vinna sömu eða sambærileg störf og að sú launahækkun miði við 1. janúar eins og hjá öðrum, en ekki 1. apríl eins og sveitafélögin gera kröfu um í viðræðum.
Sonja Ýr segir félagsmenn BSRB ánægða með auglýsingaherferðina umdeildu.
Trausti Björgvinsson, formaður Starfsmannasambands Suðurnesja og húsvörður í grunnskóla, ávarpaði bæjarstjóra á bókasafninu í morgun. Hann sagði fólk upplifa það að vera stöðugt minnt á mikilvægi sitt en væri á sama tíma mismunað í launum.
Þetta væri fólk sem hefði staðið ýmislegt af sér í kórónuveirufaraldrinum og fært fram fórnir.
Kjartan Már bæjarstjóri áréttaði að Samband íslenskra sveitarfélaga hefði komið að samningnum fyrir hönd Reykjanesbæjar eins og fleiri sveitarfélaga. Hann hvatti til þess að lausn fyndist hið fyrsta.
Þá sagðist hann ósáttur við auglýsingaherferð BSRB í nafni Reykjanesbæjar. Í auglýsingunum er óskað eftir nægjusömum starfskrafti. Taldi hann auglýsingarnar ólöglegar og hvatti til þess að þær yrðu endurskoðaðar.
Auglýsingarnar vöktu athygli fyrr í mánuðinum en þar er fleiri sveitarfélögum gerð upp leit að starfskrafti sem ýmist þurfi að vera meðvirkur eða nægjusamur.
Helena Rós Sturludóttir, fréttamaður okkar, ræddi við Kjartan að loknum fundi með starfsmönnum grunnskóla. Ástandið væri slæmt í grunnskólum bæjarins.
Þá ræddi Helena Rós við Trausta sem segir kjánalegt af Sambandi íslenskra sveitarfélaga að leggja til að BSRB fari dómstólaleiðina til að leita réttar síns.
Fundur BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara á mánudag skilaði ekki árangri. Ekki hefur verið boðaður annar fundur í ljósi þess hversu langt ber á milli deiluaðila.