Fredericia hefur ekki fagnað mörgum titlum undanfarin ár en síðasti Danmerkur titill liðsins kom árið 1980.
Liðið hefur komið á óvart á yfirstandandi tímabili með því að komast í undanúrslit í úrslitakeppni dönsku deildarinnar en nú blasir við oddaleikur við stjörnuprýtt lið Álaborgar, sem státar meðal annars af Mikkel Hansen og Aroni Pálmarssyni.
Guðmundur segir mikla stemningu í Fredericia fyrir komandi verkefni.
„Stemningin er bara stórkostleg,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi. „Það er alveg sama hvar maður er í bænum, það eru allir að tala um handbolta, spyrja út í leikinn, óska okkur góðs gengis og óska okkur til hamingju. Það er stórkostlega gaman að vera þátttakandi í þessu.
Fyrir mig er þetta mjög skemmtilegt, að finna þetta fornfræga félag vera að koma til baka. Það er ofboðslega skemmtilegt en hefur tekið 43 ár. Þetta er langur tími en ég er stoltur af því að vera þátttakandi í því að vera vekja risann. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri, að hafa verið treyst fyrir þessu verkefni.“
Guðmundur segir ofboðslega mikið hjarta og sál í Frederica.
„Það byggir meðal annars líka á því að það er saga á bak við þetta félag. Það er það sem maður finnur svo sterkt og er svo skemmtilegt. Það er meðal annars út frá þessu sem handboltafélagið í Danmörku samgleðst okkur.“
Fram undan er oddaleikur við Álaborg í dag, eitt af stærstu liðum Danmörku, ef ekki það stærsta.
„Við erum auðvitað litla liðið í þessum undanúrslitum. Það eru allir sammála um það og það hafði enginn trú á okkur, að við myndum hafa þetta af en nú erum við komnir í oddaleik og ætlum að njóta þess að spila þar.
En við erum ekki að fara þangað bara til þess að vera með, við erum að fara þangað til þess að vinna og slá þá út. Það er markmiðið.“