Eftir að PSG varð franskur meistari á laugardaginn fengu leikmenn liðsins dags frí. Rico nýtti það til að fara á hestbak á Spáni. Hann datt hins vegar af baki, fékk þungt höfuðhögg og var fluttur á gjörgæsludeild sjúkrahúss í nágrenni Sevilla.
Alba Silva, eiginkona Ricos, birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún sagðist hafa miklar áhyggjur af sínum manni.
„Ekki yfirgefa mig, elskan, því ég sver að ég get ekki og veit ekki hvort ég get lifað án þín. Við elskum þig afar heitt,“ skrifaði Silva. Þau Rico giftu sig í fyrra og eiga eitt barn saman.
Rico, sem er 29 ára, gekk í raðir PSG frá Sevilla fyrir þremur árum. Hann hefur einnig leikið með Fulham og Mallorca.