Katrín Oddsdóttir lögfræðingur er ein þeirra sem stendur fyrir viðburðinum í dag. Hún segir að um sé að ræða einskonar gleðigöngu til stuðnings þess að hvalveiðar verði stöðvaðar í eitt skipti fyrir öll.
„Nú liggur fyrir ný könnun sem sýnir að það er vilji meirihluta þjóðarinnar og auk þess liggur fyrir að þessar veiðar eru stundaðar í fullkominni andstöðu við lög og reglur sem gilda í landinu," segir Katrín.“
„Þannig ég held að fólk vilji bara einhvernveginn láta í það skína að hingað sé komið nógu mikið af fólki til þess að segja stopp og hjálpa yfirvöldum að taka hina einu réttu ákvörðun í málinu, sem er að stöðva þetta strax.“

Aðspurð um dagskrána segir Katrín að fólk muni safnast saman klukkan tvö við gömlu höfnina. Þar sé kaldhæðislegt að þar liggi hlið við hlið annarsvegar hvalaskoðunarbátar og hinsvegar hvalveiðibátar.
„Þar verða einhverjir gjörningar og kórar munu syngja og annað og svo verður gengið fylgtu liði að Hjartatorginu þar sem verður ýmiskonar dagskrá, ræður og tónlist. Högni, og Björk mun þeyta skífum og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta stendur alla leið til klukkan sjö í kvöld. Það verður listasmiðja fyrir börn til að búa til sín eigin plögg og skilti og allir velkomnir.“
Katrín segist bjartsýn á að viðburðir sem þessi skapi pressu á stjórnvöld og að það takist að stöðva veiðarnar.
„Þessar veiðar og þessi vinnsla er í andstöðu við lög og reglur í landinu. Almenningur og listafólk og bara öll sem geta verða að sjálfsögðu að sýna yfirvöldum að við látum ekki slíkt yfir okkur ganga.“