Mikil umræða hefur skapast um endurvinnslu á pappír eftir að dagblaðið Heimildin upplýsti að fernur sem flokkaðar eru með pappír til endurvinnslu séu ekki endurunnar heldur brenndar sem orkugjafi í sementverksmiðjum í Hollandi. Þær raddir hafa heyrst að almenningur hafi verið á einhvern hátt blekktur með fullyrðingum um að fernurnar yrðu endurunnar.
Sorpa segir að fyrirtækið hafi nú fengið staðfest frá hollenska fyrirtækinu Smurfit Kappa, endurvinnsluaðila sínum á pappír, að fernurnar séu ekki endurunnar heldur endurnýttar í orkuvinnslu. Í tilkynningu biðst Sorpa afsökunar á sínum þætti í að miðla ekki skýrar til fólks hver afdrif drykkjarferna sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu flokka eru.
Þrátt fyrir þetta segir fyrirtækið að það nái að endurvinna um 92 prósent af pappír sem er flokkaður.
Fernur skulu áfram flokkaðar með pappír
Svonefndar Tetra Pak-umbúðir eru samsettar úr pappa og plasti. Smurfit Kappa segir Sorpu að enginn árangur hafi náðst í að endurvinna fernurnar og að þær rýri endurvinnslumöguleika pappírs sem er flokkaður með þeim. Mikilvægt sé því að ná fernunum úr pappírsstraumnum.

Því hefur stjórn Sorpu ákveðið að senda pappír fyrst í flokkun hjá Stena Recycling, móttökuaðila Sorpu í Svíþjóð á endurvinnsluefnum, þar sem Tetra Pak-umbóðir verða flokkaðar frá öðrum pappír og pappa. Umbúðunum verði komið í betri farveg í Svíþjóð en afgangurinn af pappírs- og papparuslinu verði svo fluttur áfram til Hollands. Reiknað er með því að kostnaðurinn við útúrdúrinn til Svíþjóðar nema um 75 milljónum króna á ári.
Breytingin hefur ekki áhrif á leiðbeiningar til íbúa á höfuðborgarsvæðinu um flokkun á fernum. Þær skal áfram flokka með öðrum pappír. Annars verða þær urðaðar á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi.
Gunnar Dofri Ólafsson, samskiptastjóri Sorpu, segir í samtali við Vísi að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvað verði um fernurnar í Svíþjóð. Þjóðhátíðardagur Svíþjóðar er í dag og því hafa nánari upplýsingar ekki fengist strax. Fyrirtækið Fiskeby Board AB haldi því fram að það geti endurunnið Tetra Pak-umbúðir.