Fyrir stundu birti Trump færslu á samfélagsmiðli sínum Truth social þar sem hann greinir frá ákærunni.
„Hin spillta Biden-stjórn hefur tilkynnt lögfræðingum mínum að ég hafi verið ákærður, að því er virðist vegna kassa-skröksögunnar (e. hoax),“ skrifar Trump og heldur áfram:
„Jafnvel þótt Joe Biden sé með 1850 kassa í Háskólanum í Delaware, fleiri kassa í Kínahverfinu, Washington, og enn fleiri kassa í Háskóla Pennsylvaníuríkis. Svo þekja skjöl bílskúrsgólfið þar sem hann leggur Corvette-bílnum sínum. Þeim bílskúr er aðeins læst með hurð sem eru pappírsþunnar og oftast opin.“
Í seinni færslum lýsir hann yfir sakleysi sínu og segir að um dimman dag í sögu Bandaríkjanna sé að ræða.
Rannsóknin á hendur forsetanum fyrrverandi hefur beinst að því hvort að Trump hafi brotið lög um meðhöndlun ríkisleyndarmála og hvort hann hafi reynt að hindra alríkisstjórnina í að endurheimta þau.
Hundruð skjala sem voru merkt leynileg leyndust í fórum Trump á heimili hans í Flórída. Sum þeirra fengust ekki endurheimt fyrr en alríkislögreglan gerði húsleit þar eftir að tilraunir ríkisskjalasafns Bandaríkjanna um að fá þeim skilað báru takmarkaðan árangur.
Fjöldi vitna hefur komið fyrir ákærudómstóla í Washington-borg og Miami í Flórída vegna rannsóknarinnar. Á meðal þeirra eru ráðgjafar Trump úr Hvíta húsinu, starfsmenn í Mar-a-Lago-klúbbi hans í Flórída og fleiri en tuttugu leyniþjónustumenn úr lífvarðarsveit hans.
Trump hefur tilkynnt að hann sækist eftir kjöri sem forseti í næstu kosningum árið 2024. Hann er talinn sigurstranglegastur í forvali Repúblikanaflokksins, þrátt fyrir sakamálarannsóknir.
Þegar á hann yfir höfði sér tvær ákærur og eru tvær rannsóknir á framferði hans sem forseti enn í gangi.