Sverrir Einar staðfestir þetta í stuttu samtali við Vísi. Birgitta Líf staðfestir sömuleiðis að hún er ekki lengur á meðal eigenda en vildi ekki tjá sig nánar um eigendaskiptin að svo stöddu.
Sverrir segist standa einn að kaupum á staðnum og að ætlunin sé að „gera eitthvað skemmtilegt.“ Að öðru leyti sagði hann hlutina myndu skýrast og von væri á tilkynningu vegna eigendaskiptanna.
Bankastræti club var stofnaður í júlí árið 2021 af Birgittu Líf, áhrifavaldi og World Class-erfingja. Staðurinn var reistur á rústum gamalgróna skemmtistaðarins B5, sem lengi var rekinn í sama húsi, að Bankastræti 5 í Reykjavík.
Á sínum tíma sagði Birgitta að uppleggið hafi verið að opna skemmtistað sem væri nokkuð frábrugðinn þeim sem fyrir voru í miðbænum.
„Mig langaði að auka fjölbreytnina hérna í miðbænum. Ég hef farið á nokkra staði úti í Miami og LA og mig langaði að fanga þá stemningu,“ sagði Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club, í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Sverrir Einar á nokkuð skrautlega viðskiptasögu að baki og er nýjasta verkefni hans Nýja vínbúðin, netverslun fyrir áfengi. Talsvert hefur verið fjallað um Sverri í fjölmiðlum undanfarin ár, vegna meiðyrðamáls hans, ólöglegra auglýsinga og gjaldþrots starfsmannaleigu.
Þá var hann í apríl á síðasta ári dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik í tengslum við rekstur þriggja einkahlutafélaga.
Skemmtistaðurinn sem Sverrir kaupir nú hefur verið mikið til umfjöllunar fjölmiðla vegna alvarlegrar hnífsstunguárásar sem varð í nóvember á síðasta ári. Hátt á þriðja tug karlmanna hlupu grímuklddir inn á staðinn og réðust þar gegn þremur mönnum. Aðalmeðferð í málinu verður haldin í veislusal Gullhamra vegna fjölda sakborninga.
Birgitta Líf vildi ekki tjá sig um áhrif árásarinnar á rekstur staðarins en kveðst munu gera hlutina upp í raunveruleikaþætti hennar og fleiri áhrifavalda, LXS.