Samkvæmt frétt vefsins Tutto Mercato er Modena, liðið sem endaði sæti ofar en Pisa í töflunni með stigi meira, á eftir íslenska varnarmanninum. Nýr þjálfari liðsins, Paolo Bianco, ku vera hrifinn af hinum 28 ára gamla Hirti og vill fá hann til að styrkja vörn Modena-liðsins.
Modena fékk á sig 53 mörk á nýafstaðinni leiktíð á Ítalíu á meðan Hjörtur og félagar í Pisa fengu á sig aðeins 42 mörk í 38 leikjum.
Samningur Hjartar rennur út sumarið 2025 og því ljóst að Modena þyrfti að kaupa varnarmanninn sem spilaði samtals 28 leiki fyrir Pisa á afstaðinni leiktíð. Hann hefur spilað á Ítalíu síðan 2021 en lék með Bröndby í Danmörku þar áður.
Hjörtur á að baki 25 A-landsleiki og hefur skorað í þeim eitt mark.