Einn eftirminnilegasti leikur Jordans á ferlinum var fimmti leikur Chicago Bulls og Utah Jazz í úrslitum NBA 1997.
Umræddur leikur er betur þekktur sem Flensuleikurinn. Jordan spilaði leikinn fárveikur en lét það ekki á sig fá; skoraði 38 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar á 44 mínútum.
Eftir leikinn gaf Jordan boltastrák Utah skóna sína. Fimmtán árum seinna seldi hann þá fyrir rúmlega hundrað þúsund Bandaríkjadala á uppboði. Nú, 26 árum seinna, fóru þeir aftur á uppboð og seldust fyrir 1,38 milljónir Bandaríkjadala. Það gera rúmlega 190 milljónir íslenskra króna.
Skórnir úr Flensuleiknum eru þó ekki dýrasta skópar Jordans sem hefur selst. Skórnir sem hann notaði í úrslitum NBA 1998 seldust fyrir 2,2 milljónir Bandaríkjadala í apríl.