Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Tískan er alls konar, ætli það sé ekki það sem gerir hana skemmtilega. Margbreytilegur andskoti sem er skemmtilegt að leika sér með.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Ég er búinn að stunda það í dágóðan tíma að ræna fötum af mömmu og pabba. Ég tók sixpensara af pabba fyrir tveimur árum sem ég held mikið upp á og nota iðulega við viðeigandi tilefni.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Það fer eftir ýmsu, ég hef tekið tímabil þar sem ég verð og seinn á mannamót eða fundi því mér finnst ekkert passa og svo á hinn bóginn er ég oft mjög snöggur að velja.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Pólaríserandi, ég er í stanslausu andsvari við sjálfan mig um hvað mér finnst flott og skemmtilegt.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Ég held að ég sé farinn að klæða mig meira „fullorðins“, hvað sem það nú þýðir. Ég er meira farinn að vera skotinn í jakkafataklæðnaði og þess háttar.
Mögulega er ég að láta undan einhverjum samfélagslegum þrýstingi um aldurskomplexa og karlmennsku hugmyndir. Það verður að fá að liggja á milli hluta.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Allt í kringum um mann hefur áhrif á skoðanir og sjálfið, hvort manni líkar það betur eða verr. Ég á það oft til að sjá einhverja töff týpu og hugsa með sjálfum mér: „Ég vil vera svona“.
Ég læt vissulega aldrei verða að því en mér finnst maður eiga að vera stoltur af því að sækja sér innblástur og reyna ekkert að fela það.
Annars finnst mér allt mitt nánasta fólk vera ógeðslega töff: Birta kærasta mín, JóiPé, Axel Magnús, Ísak Emanúel, Katla Njáls, mamma og pabbi.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei guð, það er leiðinleg forræðishyggja að banna eitthvað eða hafna einhverju sem öðrum finnst flott.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Ég spilaði einu sinni á tónleikum í kjól af Eivöru… Ég reif kjólinn.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Það sem lætur þér líða vel lúkkar vel.

Hér má fylgjast með Króla á Instagram.
Hér má hlusta á Króla á streymisveitunni Spotify.