Skoðun

Fegrunaraðgerð Íslandsbanka

Sigmar Guðmundsson skrifar

Það er dapurlegt að lesa um hvernig stjórnendur og starfsmenn Íslandsbanka virðast hafa aftengt sig þeirri staðreynd að þegar útboðið fór fram var bankinn í meirihlutaeigu ríkisins. Eignin sem verið var að selja var ríkiseign. Skýrsla fjármálaeftirlitsins er eins og lýsing á einhverjum subbubisness fyrir hrun og ekki skrítið að fólk sé slegið.

Til viðbótar við lögbrotin og hirðuleysið er síðan eitt atriði sem mér finnst ekki síður alvarlegt. Hvernig dettur stjórnendum bankans í hug að senda frá sér þessa yfirlýsingu fyrir helgi? Að lesa hana núna, samhliða skýrslunni, er ansi sláandi. Yfirlýsingin er ekkert annað en fegrunaraðgerð, þar sem reynt er að draga úr alvarleika málsins með einhverjum orðavaðli þar sem menn forðast kjarna máls eins og heitan eldinn.

Það fyrsta sem almenningur heyrir frá bankanum, eftir lögbrot hans við að selja eigur þessa sama almennings, er villandi orðasalat þar sem markvisst er reynt að gera minna úr málinu en efni standa til. Bankastjórinn fór síðan í viðtal og fullyrti að sáttin væri í raun traustsyfirlýsing fjármálaeftirlitsins til stjórnar og bankastjóra! Þegar þau orð féllu hafði bankastjórinn lesið skýrsluna og þann áfellisdóm sem hún hefur að geyma um bankann.

Ef það á að vera innistæða fyrir heitstrengingum um að draga lærdóm af þessu, þá voru þessi fyrstu skref afleit byrjun. Það er oft sagt að bankarekstur snúist um traust. Traust er lykilhugtak. Nú þurfa stjórnendur bankans að hugleiða hvort þeir njóti traust almennings eftir að þeir brugðust traustinu svona illilega við að selja ríkiseign. Það þurfa stjórnvöld líka að gera.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×