Ragnar Þór sagði í síðustu viku að stjórn VR væri að íhuga alvarlega að hætta viðskiptum við Íslandsbanka, vegna þeirra brota sem starfsmenn bankans frömdu við útboð á um fjórðungs hut ríkisins í bankanum. Að hans sögn er VR með milljarða króna í eignastýringu og viðskiptum við bankann.
Þá sagðist hann ætla að hvetja Lífeyrissjóð verzlunarmanna til að slíta viðskiptum við bankann sömuleiðis. Breyta þyrfti verulega til í bankanum svo að VR gæti hugsað sér að halda viðskiptum við hann áfram.
Jón Guðni Ómarsson, nýr bankastjóri Íslandsbanka hefur á síðustu dögum tekið til í starfsmannamálum innan bankans og hafa nú tveir stjórnendur - Ásmundur Tryggvason framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta og Atli Rafn Björnsson sem stýrði fyrirtækjaráðgjöf bankans - látið af störfum.
Jón Guðni segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ekki enn hitt Ragnar Þór til að ræða málin.
„En ég ætla að hitta hann í vikunni og geri mitt besta til að endurvinna traust hjá honum eins og öðrum,“ segir Jón Guðni.
Ragnar segir í samtali við fréttastofu að tekin verði ákvörðun um framhaldið að loknum hluthafafundi í bankanum, sem verður 28. júlí næstkomandi. Það sé mjög alvarlegt að smærri fjárfestar hafi fengið forgang fram yfir stóra, eins og til að mynda Lífeyrissjóð verzlunarmanna, sérstaklega þegar lífeyrissjóðirnir hafi verið tilbúnir til að greiða fullt verð fyrir hvern hlut, en ekki afsláttarverð eins og raun bar vitni.