Árásin var gerð í hverfinu Kingsessing í suðvestanverðri Fíladelfíu á níunda tímanum að staðartíma í gærkvöldi. Byssumaðurinn er sagður um fertugt. Hann var vopnaður árásarriffli og klæddur skotheldu vesti. Hann hélt áfram að skjóta á meðan lögreglumenn veittu honum eftirför. Hann gafst á endanum upp og var handtekinn, að sögn AP-fréttastofunnar.
Öll fórnarlömbin voru karlmenn. Þrír þeirra voru á aldrinum tuttugu til 59 ára en sá yngsti á bilinu sextán til tuttugu og eins árs. Auk þeirra voru tveggja og þrettán ára drengi færðir á sjúkrahús. Ástand þeirra er sagt stöðugt.
Engin augljós tengsl voru á milli byssumannsins og fórnarlamba hans, að sögn Danielle Outlaw, lögreglustjóra Fíladelfíu.
„Á þessari stundu vitum við það eitt að þessi maður ákvað að fara að heiman og ráðast á fólk,“ sagði Outlaw á blaðamannafundi.
Annar maður var handtekinn á vettvangi vegna gruns um að hann hafi svarað skothríð byssumannsins. Ekki liggur fyrir hvort að þeir tengist.
Fjöldamorðið í gær var það tuttugusta og níunda í Bandaríkjunum það sem af er ári samkvæmt gagnagrunni AP og USA Today. Þau hafa aldrei verið fleiri þegar svo skammt er liðið af ári. Þá hafa heldur aldrei fleiri verið myrtir í fjöldaskotárásum svo snemma á árinu.