Gísli fór úr axlarlið í fjórða sinn í síðasta mánuði. Að auki hefur hann einu sinni farið úr olnbogalið. Hann vonast eftir því að vera frá keppni í aðeins fjóra mánuði en læknar tala um að þetta ferli getið tekið fjóra til sjö mánuði.
„Ég vil ekkert vera koma beint úr sjúkraþjálfunarherberginu út að spila fyrir landsliðið. Ég verð að fá smá æfingu og sérstaklega spilæfingu. Ég vil auðvitað bara jafna mig sem fyrst á þessu og í besta falli verð ég klár eftir fjóra mánuði. Síðan myndi ég vilja spila vel fram að móti og koma okkur á pall í janúar,“ segir Gísli Þorgeir.
Hann segir að það komi ekki til greina að fara beint út á mótið eftir að hafa klárað endurhæfingu.
„Það segir sig sjálft að það yrði ekki vinsælt í Magdeburg að fara með mig beint á mótið eftir að hafa klárað endurhæfingu,“ segir Gísli og bætir við að auðvitað komi upp margar neikvæðar hugsanir þegar hann meiðist svona alvarlega en Gísli er aðeins 23 ára og hefur þurft að glíma við þráðlát axlarmeiðsli.
„En maður er fljótur að vera jákvæður og líta á jákvæðu hliðarnar og hugsa hvernig ég kemst út úr þessari holu og redda þessu.“