Sport

Sló 31 árs marka­met Waynes Gretzky

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Ovechkin með Wayne Gretzky í búningsklefanum eftir leikinn þar sem hann sló markametið í NHL.
Alex Ovechkin með Wayne Gretzky í búningsklefanum eftir leikinn þar sem hann sló markametið í NHL. getty/Jess Rapfogel

Rússinn Alex Ovechkin er orðinn markahæsti leikmaður í sögu NHL-deildarinnar í íshokkí. Hann sló 31 árs met Waynes Gretzky.

Ovechkin skoraði sitt 895. mark á ferlinum í NHL þegar lið hans, Washington Capitals, mætti New York Islanders í gær.

Eftir að Ovechkin skoraði markið sögulega var leikurinn stöðvaður í tuttugu mínútur meðan honum var fagnað. Gretzky var á leiknum og gladdist fyrir hönd Ovechkins.

„Ég get sagt þér að ég veit hversu erfitt það er að ná 894 mörkum svo 895 mörk er ansi sérstakt. Þeir segja að metum sé ætlað að vera slegin en ég er ekki viss hver ætlar að skora fleiri mörk en þetta,“ sagði Gretzky. 

Hann varð markahæsti leikmaður í sögu NHL 1994 og var handhafi metsins í 31 árs, eða allt þar til Ovechkin sló það í gær.

„Þvílíkt augnablik fyrir íshokkí, þvílíkt augnablik fyrir mig. Loksins mun enginn spyrja mig framar: Hvenær ætlarðu að gera þetta? Ég er búinn að þessu,“ sagði Ovechkin.

Hann hefur leikið með Capitals allan sinn tuttugu ára feril í NHL og vann Stanley bikarinn með liðinu 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×