Skoðun

Skemmtum okkur fal­lega í sumar

Drífa Snædal skrifar

Sumarið er tíminn! Tíminn þar sem fólk nýtur sumarnótta, skemmtir sér, fer í útilegur og prófar sig áfram í samskiptum. Því miður er sumarið líka tíminn þar sem menn hafa beitt ofbeldi (eins og á öðrum tímum ársins) og á stundum nýtt sér óreiðu og varnarleysi til að ganga yfir mörk og virða ekki samþykki. Samþykki er forsenda þess að fólk stundi kynlíf en beiti ekki ofbeldi en ofbeldi og kynlíf er tvennt ólíkt og ber ekki að rugla saman!

En hvað er hægt að gera til að sumarið verði ánægjulegt fyrir öll, fólk skemmti sér fallega og öll koma heil heim af útihátíðum. Við því er einfalt svar: Ekki beita ofbeldi! Eina leiðin til að uppræta ofbeldi er að velja að vera ekki ofbeldismaður. Það er ekki að konur og önnur passi sig, passi hver aðra, drekki sig ekki fullar eða séu einar á ferð. Það má og er aldrei ástæða fyrir að vera beitt ofbeldi.

Við getum hins vegar öll lagt okkar af mörkum til að ofbeldismenning þrífist ekki og dregið þar með úr hættunni á að aðrir beiti ofbeldi.

Stígamót hafa tekið saman þrjá punkta til að minna fólk á hvernig hægt er að taka afstöðu gegn ofbeldi og með því óskum við landsmönnum öllum áframhaldandi gleðilegs og fallegs sumars:

  1. Ég stunda ekki kynlíf eða önnur kynferðismök með manneskju sem 1) gefur ekki samþykki, 2) er ekki í aðstöðu eða ástandi til að gefa samþykki, og 3) dregur samþykki sitt til baka á einhvern hátt hvort sem það sé með orðum eða hátterni.
  2. Ég hlæ ekki né bregst jákvætt við drusluskömmun, nauðgunarbröndurum eða réttlætingu á kynferðisofbeldi.
  3. Ég styð fólk í kringum mig sem hefur orðið fyrir ofbeldi og geri ekki lítið úr upplifun eða líðan þeirra.

Höfundur er talskona Stígamóta.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×