Fræðafólk við Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands gerði úttekt á smitáhrifum sem kemur fyrir í skýrslu forsætisnáðuneytisins sem fjallar um stöðu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa skilað henni inn til Sameinuðu þjóðanna og verður hún formlega kynnt á ráðherrafundi í New York á þriðjudag.
Áhrif á getu annarra ríkja
Með smitáhrifum er átt við hvernig aðgerðir innan hvers ríkis hafa neikvæð eða jákvæð áhrif á getu annarra ríkja til að ná heimsmarkmiðunum. Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands, segir neyslu og innflutning hafa mikil áhrif.
„Helstu niðurstöðurnar eru þær að við Íslendingar við stöndum okkur illa þegar það kemur að þessum svokölluðu neikvæðu smitáhrifum á önnur ríki eða svæði. Einnig að kolefnisspor okkar er með því hæsta í heiminum þegar allar innfluttar vörur eru teknar með inn í reikninginn. Þá erum við að tala um af því við erum svo ríkt og neyslufrekt samfélag að þá höfum við neikvæð áhrif á samfélög, umhverfi og efnahag annarra landa sérstaklega með innflutningi okkar og neyslu,“ segir Hafdís Hanna.
Þurfi skýra framtíðarsýn
Ísland sé í 158 sæti meðal þeirra 163 landa þar sem smitáhrifin hafa verið metin. „Við erum mjög neðarlega á þessum lista og á neðsta sæti af Norðurlöndunum,“ segir hún. Það sé í raun alveg öfugt við það að Ísland sé ofarlega þegar kemur að því að innleiða heimsmarkiðin heima fyrir.
„Við stöndum okkur vel þegar kemur að menntun, heilbrigðismálum og ýmsu öðru sem varðar heimsmarkmiðunum hérna heima fyrir en svo höfum við slæm áhrif á önnur lönd með okkar neyslu og innflutningi. Þar stöndum við okkur illa,“ segir útskýrir Hafdís Hanna.
Íslensk stjórnvöld þurfi meðal annars að setja fram skýra framtíðarsýn, markmið og fjármagnaða aðgerðaráætlun. Auka rannsóknir um smitáhrif, hvar þau sé að finna og afla frekari gagna. Þá þurfi að auka hringrásarhagkerfið með því að innleiða græna hvata.