Bandaríski dægurmiðillinn IGN hefur eftir Paul að hann muni ekki eftir annarri eins umræðu. Hann segist hafa greint gögn um miðasölur í áraraðir og aldrei séð annað eins. Myndirnar eru forsýndar í dag hér á landi og frumsýndar á morgun, á sama tíma og vestanhafs.
Myndirnar gætu ekki verið ólíkari, eins og Paul bendir á. Í Barbie fer Margot Robbie með hlutverk Barbie dúkku í tilvistarkreppu á meðan Cillian Murphy fer með hlutverk vísindamannsins sem er áhrifamestur við gerð kjarnorkusprengjunnar í Oppenheimer.
Hífa hvor aðra upp
„Ég hef fylgst með og greint gögn yfir miðasölutekjur kvikmynda í þrjátíu ár núna og ég hef ekki séð svona áður,“ hefur IGN eftir Paul. Segir miðillinn að tugir þúsundir miða hafi selst í forsölu á báðar myndirnar og er búist við að þær muni raka inn tekjum.
„Markaðsteymi þessara mynda eiga mikið lof skilið og hafa grætt vel á því að frumsýna myndirnar á sama tíma,“ segir Paul og vísar sérstaklega til þeirra miklu eftirvæntingar sem ríkt hefur eftir myndunum í netheimum.
„Það að þetta séu svo ólíkar myndir magnar svo upp þessi áhrif og vekur enn meiri athygli á myndunum. Það eru dæmi um að fólk sé að kaupa sér miða á frumsýningardegi á báðar þessar myndir og þetta er fólk sem er ekki einu sinni það áhugasamt allajafna um kvikmyndir.“
Hann segir ótrúlegt hvernig myndirnar hífi hvor aðra upp. Barbie sé markaðssett fyrir allt annan hóp en Oppenheimer. Forsvarsmenn þeirrar myndar vilji helst laða að sér alvöru kvikmyndanörda, á meðan búist er við að Barbie geti fallið vel í kramið hjá venjulegu fólki.
„Allajafna ættu svo stórar myndir sem gefnar eru út á sama tíma að hafa skaðleg áhrif á vinsældir hvor annarrar og í raun „éta“ vinsældir hvor annarrar. En í þessu tilviki bæta þær hvor aðra upp.“
Hann segir ljóst að „Barbenheimer“ hafi orðið að sérstökum viðburði fyrir slysni. Það sé helsta ástæða þess hve vel hafi tekist til við markaðssetningu myndanna.
„Ég held að þess vegna hafi þetta gengið svo vel, vegna þess að þetta virkar mjög náttúrulegt og eðlilegt. Nema við séum bara leiksoppar,“ hefur IGN eftir sérfræðingnum.