Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir Kringvarps Færeyja af eftirför tveggja færeyskra varðskipa að skipi Paul Watsons, sem þekktastur er hérlendis fyrir skemmdarverkaárás gegn Hval hf. í nóvember 1986. Þá var tveimur hvalbátum sökkt í Reykjavíkurhöfn og spellvirki unnin í hvalstöðinni í Hvalfirði. Í fyrrasumar sagði hann skilið við Sea Shepherd-samtökin eftir að verið settur þar til hliðar.
Í sumarbyrjun bárust þær fregnir að hann hefði fengið sér nýtt skip, John Paul De Joria, og væri á leiðinni til Íslands til að stöðva hvalveiðar Íslendinga. Hann var kominn langleiðina að íslensku lögsögunni þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tók af honum ómakið þann 20. júní.
Paul Watson virðist hafa beðið átekta við Íslandsmið í um hálfan mánuð áður en hann sneri sér að Færeyingum. Þann 7. júlí kom hann að færeysku lögsögunni og þegar fréttist af grindhvaladrápi við Þórshöfn þann 9. júlí lét hann til skarar skríða, sigldi skipi sínu inn til Þórshafnar, en kom of seint því drápið var yfirstaðið. Watson og menn hans náðu þó að taka myndir af blóðugum sjónum áður en þeir hröðuðu sér aftur út fyrir tólf mílurnar.
Eftir þessa uppákomu virðast bæði færeysk og dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að hafa betri gætur á skipi Watsons. Danska herskipið Hvítabjörninn hélt sig nærri en einnig færeysku varðskipin.

Í fyrradag braut Watson aftur gegn banni um að koma inn fyrir tólf mílna lögsögu Færeyja þegar fréttist af grind í Sandavogi. Í þetta sinn voru tvö varðskip Færeyinga viðbúin, Brimil og Tjaldrið, og birti Kringvarp Færeyja myndir þar sem þau sáust sigla hraðbyri til móts við skip Watsons.
Þegar varðskipin nálguðust stökk Watson á flótta og forðaði sér út úr lögsögunni. Segir Kringvarpið skip hans núna á siglingu suður á bóginn austan Bretlandseyja og hafi sett stefnuna á Lissabon í Portúgal.
Málinu er þó ekki lokið því færeysk yfirvöld kærðu skipstjóra John Paul De Joria fyrir að hafa þrívegis brotið gegn banni um að sigla inn fyrir tólf mílurnar. Hann var boðaður fyrir rétt í Færeyjum í gær en mætti ekki og ákvað dómarinn þá að sekta hann um 75 þúsund danskar krónur fyrir brotið, andvirði um 1,5 milljóna íslenskra króna.
Auk þess var hann dæmdur til að greiða tvöþúsund krónur danskar í sekt fyrir brot gegn útlendingalögum og fimmþúsund danskar krónur í sekt fyrir brot gegn tollalögum, eða samtals um 140 þúsund íslenskar krónur. Aðrir 27 áhafnarmeðlimir voru einnig sektaðir fyrir brot gegn útlendingalögum. Ákæruskjalið var sent til siglingamálayfirvalda á Jamaica, heimalandi skipsins, sem sögð eru hafa komið því áfram til skipstjórans.