Þar hafa rúmlega nítján þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín eða hótel og segja grísk stjórnvöld að um stærsta slíka flutning á fólki í sögu Grikklands sé að ræða. Fjöldi erlendra ferðamanna er í þessum hópi og eru Bretar sérstaklega margir. Þeir sem ekki hafa verið fluttir brott af eyjunni dveljast nú í neyðarskýlum sem komið hefur verið upp í skólum og íþróttasölum.
Þá er flugvöllur eyjarinnar fullur af fólki einnig. Breskar ferðaskrifstofur og flugfélög reyna nú að koma fólkinu til síns heima eða á aðra staði. Á Korfu er ástandið litlu skárra, þar var gefin út tilskipun í gærkvöldi um að hefja fólksflutninga frá hluta eyjarinnar og er fólk flutt sjóleiðina á brott. Og í morgun bárust svipaðar fregnir af eyjunni Evia. Korfu er líkt og Ródos afar vinsæll ferðamannastaður.
Mikill hiti hefur verið á Grikklandi eins og víða annars staðar í sumar og hefur hitastigið verið um og yfir fjörutíu gráður vítt og breitt um landið um margra vikna skeið. Eldarnir á Ródos hafa nú logað í tæpa viku.