„Á laugardaginn staðfestu Hildur Guðna mín og Sam Slater ást sína á ástarfleyi á vatninu Wannsee að viðstöddum ættingjum og vinum,“ segir Ingveldur Guðrún Ólafsdóttir, móðir Hildar, í færslu á samfélagsmiðlinum Instagram.
Þá segir Ingveldur að listakonan Anna Rún Tryggvadóttir hafi vígt hjónin og að ræða hennar verði í minnum höfð um ókomna tíð. „Það var sungið, dansað, grátið, drukkið og kysst. Kærleikur og ást skein úr allra augum. Vart er hægt að hugsa sér annan eins dýrðarinnar dag.“
Hildur þakkaði meðal annars Sam þegar hún hlaut Óskarsverðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker árið 2020. „Magnaði eiginmaður minn, Sam, ástin mín, besti vinur minn, hin eyrun mín. Ég væri týnd án þín,“ sagði Hildur í ræðunni.