Að því er fram kemur í tilkynningu frá Play er flugfélagið að stækka tengiflugsleiðakerfi sitt enn frekar með því að bæta við Frankfurt. Áfangastaðurinn mun tengjast við aðra áfangastaði félagsins í Norður-Ameríku, það eru Boston, Baltimore, New York og Washington DC í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada.
Þann 14. desember næstkomandi á fyrsta flug Play til Frankfurt að fara fram. Eftir það verður flogið að jafnaði fjórum til fimm sinnum í viku yfir veturinn. Flogið verður til Frankfurt alþjóðaflugvallarins sem er í um tuttugu mínútna fjarlægð frá borginni.
„Það er frábært að geta bætt enn frekar við tengiflugsleiðakerfið okkar nú þegar eftirspurn í Norður-Ameríku eftir flugi yfir Atlantshafið er mikil,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, í tilkynningu.
Birgir segir tekjur af farþegum sem koma frá Norður-Ameríku vera mun hærri en áður og því sé þetta góður tími til að bæta enn frekar framboðið á þeim markaði.
„Með tíu farþegaþotur í yngsta flota Evrópu erum við vel í stakk búin til að stækka leiðakerfið okkar og skapa um leið tekjur í góðu jafnvægi við kostnað.f“