Skoðun

Leik­þáttur í boði stjórn­valda

Eyþór Kristjánsson skrifar

Nú er verslunarmannahelgin yfirstaðin og hefur fólk víða um land skemmt sér konunglega og fagnað helginni með pompi og prakt. Ýmsar vangaveltur brenna á höfundi þessa dagana sem tengjast auglýsingum vímuefna. Höfundur hefur ekki lagt það í vana sinn að skipta sér af því hvað fólk gerir á meðan það særir ekki aðra. Einnig hefur höfundur notað vörurnar sem fjallað verður um hér að neðan og hefur ekkert á móti sölu þeirra. Á Íslandi er þó ólöglegt að auglýsa áfengi og tóbaksvörur, þá væntanlega til að standa undir lýðheilsumarkmiði sem við höfum ákveðið að setja okkur. Hins vegar finnst höfundi eðlilegt að leggja fram eina einfalda spurningu sem varðar auglýsingar á áfengi og eða nikótínvörum því höfundi telur þetta vera leikþátt af hálfu stjórnvalda og auglýsendur og almenningur leikarar.

Hvort viljum við að það sé löglegt eða ólöglegt að auglýsa áfengi eða tóbaks/nikótínvörur?

Á bak við þessa spurningu eru ýmis konar sjónarhorn eins og þau sem varða lýðheilsustefnu, frelsi einstaklinga og atvinnurekanda til að vera samkeppnishæf við erlenda aðila og þar fram á eftir götunum. Einnig eru hagsmunaaðilar háðir auglýsingatekjum frá framleiðendum og auglýsendum sem vilja auka sölu á sínum vörum. Þá umræðu leggur höfundur ekkert sérstakt mat á en furðar sig á þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Eðlilegt er að lagaramminn í kringum þessar vörur sé skýr og ekki sé verið að auglýsa vímuefni undir rós. Almenningur áttar sig vel á því hvað er verið að selja.

Í tugi ára hafa innlendir bjórframleiðendur auglýst sínar vörur undir formerkjum þess að þau séu að auglýsa vatn með bjórbragði sem þeir kalla „léttöl“. Alls ekki bjór! Þetta er orðið svo rótgróið í íslenskri menningu að allir þekkja þessa undankomuleið markaðsmanna.

Nýverið var Thule að birta auglýsingar sínar sem hljóða þannig: ,,Á ekkert að fá sér?” með brosandi leikara sem horfir á sig í spegli, en glöggir áhorfendur sjá þó að neðarlega í hægra horninu í leturstærð 6 er um léttöl að ræða, en ekki áfengan drykk.

Markaðsherferðir eins og þessar hafa því hlutverki að gegna að styrkja vörumerkið í hug neytenda og á endanum leiða til aukinnar sölu á vörunni er um ræðir.

Önnur auglýsing hjá vörumerki sem hefur verið í veldisvexti er frá Svens. Þar er fígúra sem er glaðlegur nýtískulegur ljóshærður millistéttarhipster frá Svíðþjóð sem selur fólki nikótínpúða og er “alltaf brä”. Ef marka má ársreikning félagsins sem nálgast má hjá vefsvæði skattsins þá voru rekstrartekjur þess 870 milljónir króna árið 2021. Virðist mjög mikið fyrir einungis einn af nikótínpúðasmásölum landsins.

Stefán Pálmason, sérfræðingur í lyflækningum munnhols, sagði í nýlegu viðtali að sú vara væri mögulega verri en íslenska neftóbakið.

Af hverju er í lagi að auglýsa nikótínpúða en ekki íslenskar neftóbaksdollur? Eru þær vörur eitthvað síðri? Hver er raunverulegi munurinn?

Víðfeðmni nikótínrisanna er að gerjast inn í íslenskt menningarlíf í formi Sven. Höfundur vill því endurtaka spurninguna, ætti það að vera löglegt eða ólöglegt?

Hvert er markmið fyrirtækis annað en að hámarka arðsemi af þeirra vinnu og peninga sem þau hafa sett í reksturinn? Finnst okkur eðlilegt að fyrirtækið auglýsir sitt vörumerki með unglinga og/eða ungmenni sem sinn helsta markhóp? Eða eigum við kannski að láta eins og Sven, ungi og töff maðurinn á brimþotu (e. jetski) í markaðsefni þeirra, sé sko einungis ætlað að vera töff fyrir 18 ára og eldri og ekkert óeðlilegt sé við slíkar auglýsingar.

Hvort ættu slíkar auglýsingar að vera löglegar eða ekki? Hvað finnst markaðsmönnum? Hvað finnst alþingismönnum? Hvað finnst lýðheilsuvísindafólki? Hvað finnst almenningi?

Höfundur er Viðskiptafræðingur. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×