Skoðun

Lýð­ræðis­legur ó­mögu­leiki

Sigurður Páll Jónsson skrifar

Nú reynir formaður Sjálfstæðisflokksins að berja í brestina eða öllu heldur „að fylla uppí gljúfur“ til að halda öndunarvél sitjandi ríkisstjórnar í gangi.

Átök innan ríkisstjórnarinnar voru orðin gríðarleg á haustdögum árið 2019, en þá kom Covid-19 og þríeykið fékk sviðið og ríkistjórnarflokkarnir gátu farið í sóttkví. Eftir kosningarnar árið 2021 var framlengt og ríkisstjórn „hinna breiðu skírskotana“ endurnýjaði límið í ráðherrastólunum. Stjórnarsáttmálinn um að stækka báknið, færa embættismönnum, ráðuneytum og ESB völdin var endurnýjaður.

Lýðræði var fótum troðið eftir að pólitíkin var lögð til hliðar hér á Íslandi eftir kosningarnar árið 2017. Vinstri grænir, framsóknar og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn um nánast ekkert af því sem kjósendum var lofað í kosningabaráttunni, hvorki þá eða 2021. Til að geta setið setið saman á ráðherra bekknum á alþingi þarf ríkisstjórn sem er samansett þvert yfir hinn pólitíska öxul frá vinstri til hægri að sópa öllum stefnumálum hvers flokks fyrir sig út af borðinu.

Í vor fór Alþingi í sumarfrí fyrirvaralaust og öllum ágreiningsmálum sopað út af borðinu. Formaður Sjálftæðisflokksins segir í viðtali í gær að hann hafi verið ósáttur við þetta fyrirvaralausa sumarfrí alþingis, alltaf svo saklaus.

Svo litu pappírar Lindarhvols málsins dagsljósið, Íslandsbankamálið tók á sig nýja mynd og sjávarútvegsráðherra bannaði hvalveiðar korter fyrir vertíð. Reiðilestur nokkra þing og flokksmanna Sjálfstæðisflokksins í greinarskrifum og viðtölum í sumar gáfu til kynna mikla óánægju innan þeirra raða. En svo komu þeir hnípnir til baka og eiginlega báðu afsökunar á sínum pirringi.

Þó ég reikni með að sólin komi upp á austurhimininn í fyrra málið, sem maður efast stundum um miðað við allar þær heimsendaspár sem yfir fréttaheiminn dynja, þá er ríkisstjórnarsólin löngu sest.

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×