„Við fórum fyrst að taka eftir þessu við þrif á vögnunum hjá okkur. Þá var þetta einn og einn kútur en nú er þetta orðið miklu meira. Þessi fjöldi sem ég birti mynd af á Facebook er til dæmis bara úr einum vagni,“ segir Sævar Baldursson, framkvæmdastjóri Bus4U sem rekur strætisvagna í Reykjanesbæ.
Sævar birti mynd af gashylkjunum á Facebook. Hann segir færsluna setta inn til vitundarvakningar fyrir foreldra svo þau geti verið meðvituð um hætturnar og leiðirnar sem unglingar finni til að komast í vímu.
„Auðvitað veit ég ekki hvort þeir eru að sniffa þetta eða anda þessu að sér, en það skiptir engu máli því bæði er skaðlegt. Svo var einn krakki gómaður með rjómasprautu og blöðrur. Þetta virðist vera hlátursgas, svipað og tannlæknar nota til að mynda.“
Sævar segir að sér hafi einnig verið bent á það af öðrum íbúum að slíkar rjómasprautur hafi fundist við gömlu sundlaugina í Keflavík, sem sé í hálfgerðu eyði.
„Þannig að þetta virðist vera eitthvað sport hjá þeim núna að stunda þetta. Mér finnst allt í lagi að foreldrarnir vakni til vitundar um það hvað börnin séu að bralla.“