Það tók gestina í Atlético ekki langan tíma að opna markareikning kvöldsins en Antoine Griezmann skoraði strax á 2. mínútu eftir undirbúning Rodrigo de Paul. Þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn tvöfaldaði Memphis forystu gestanna eftir undirbúning Saúl Ñíguez.
Memphis fór meiddur af velli á 35. mínútu en í hans stað kom Álvaro Morata inn á. Mínútu síðar var staðan orðin 3-0 Atlético í vil. Að þessu sinni var það Nahuel Molina sem skilaði boltanum í netið eftir undirbúning De Paul, staðan 0-3 í hálfleik.
Það tók gestina dágóða stund að bæta við fjórða markinu en það gerði Morata á 73. mínútu eftir sendingu frá Ñíguez. Sex mínútum síðar kom Angel Correa gestunum í 5-0. Morata bætti svo við sjötta markinu áður en Marcos Llorente tryggði ótrúlegan 7-0 sigur Atlético Madríd á 86. mínútu leiksins.
FINAL #RayoAtleti 0-7
— LALIGA (@LaLiga) August 28, 2023
¡Contundente triunfo del @Atleti a domicilio!#LALIGAEASPORTS pic.twitter.com/dwzwXwq5Md
Með sigrinum fer Atlético upp í 3. sæti með 7 stig, tveimur stigum á eftir nágrönnum sínum í Real sem tróna á toppi deildarinnar með níu stig. Önnur lið með sjö stig eftir þrjár umferðir eru Girona og Barcelona.