Leikur FH og KA fer fram á morgun, miðvikudag, og er síðasti leikur 21. umferðar Bestu deildarinnar. Með sigri fer FH upp fyrir Stjörnuna í 4. sæti og væri þá aðeins fjórum stigum á eftir Íslandsmeisturum Breiðabliks sem sitja í 3. sætinu.
FH fer svo í Kópavoginn í síðustu umferð fyrir úrslitakeppni deildarinnar og gæti því minnkað muninn niður í aðeins eitt stig, fari svo að liðið vinni á miðvikudag.
KA lifir í veikri von um að enda í efri hluta deildarinnar en til þess að það gerist þarf liðið að vinna FH, helst stórt, sem og Fylki í 22. umferðinni á meðan KR, FH og HK þurfa helst öll að tapa sínum leikjum.
Leikur FH og KA hefst klukkan 17.30 á morgun, miðvikudag, og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.