Norskur karlmaður hefur verið dæmdur í 3,5 hálfs árs fangelsi fyrir að vanhelga líkamsleifar, að brjóta á reglum um greftrun, skjalafals og fjársvik. Maðurinn geymdi lík látinnar sambýliskonu sinnar í frystikistu á sveitabæ sínum í Svíþjóð í um fimm ár, færði ýmsar eignir hennar yfir á sig og innheimti bætur í hennar nafni í fimm ár.
Auk þess að sitja í fangelsi hefur honum því verið gert að greiða NAV, sem er norska velferðar- og vinnumálastofnunin, 1,5 milljón norskra króna til baka. Það samsvara um tæpum 19 milljónum íslenskum króna.
Maðurinn var upprunalega kærður fyrir manndráp en nákvæm dánarorsök fannst ekki við krufningu og var sú kæra því látin falla niður. Í ágúst var hann svo fundinn sakhæfur og í kjölfarið dæmdur til fangelsisvistar.
Við yfirheyrslu sagði maðurinn að hann hefði lofað konunni sinni að jarða hana á sama stað og hundurinn þeirra, Loki, var jarðaður. Hann hafi þannig ætlað að geyma hana í frystinum þar til að vori en að hann svo aldrei lokið verkinu vegna ýmissa vandamála, tengdum geðheilsu hans og misnotkun á áfengi.
„Ég missti stjórnina og hugsaði bara um hana. Ég jarðaði hana aldrei og hún var bara áfram í frystinum,“ sagði maðurinn.
Haft er eftir lögmanni mannsins í frétt VG að hann telji refsinguna of háa, en ekki er ljóst hvort hann ætli að áfrýja.
Maðurinn á að baki langan sakaferil og hefur áður hlotið dóm fyrir tvær nauðganir. Hann hefur alltaf neitað því að hafa myrt konuna.