Hvalur 9 kom í nótt með tvær langreyðar að landi í Hvalfirði. Þá er Hvalur 8 á leið til hafnar með tvær langreyðar og væntanlegur að hvalstöðinni um klukkan ellefu fyrir hádegi. Sem fyrr veiddust allir hvalirnir sunnan við landið, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Fyrstu þrír hvalir vertíðarinnar náðust síðastliðinn fimmtudag, 7. september, og var þeim landað daginn eftir, á föstudag. Eftir að hafa legið inni vegna brælu í rúman sólarhring héldu hvalbátarnir aftur á miðin á laugardagskvöld og komu svo með fjóra hvali að landi á mánudag. Þeir héldu síðan strax út aftur og náðu fjórum til viðbótar innan sólarhrings.
Á hvalvertíðinni í fyrra veiddust alls 148 langreyðar á tímabilinu frá 22. júní til 28. september. Samkvæmt tölum Hagstofunnar nam útflutningsverðmæti af frystum hvalaafurðum um 2,8 milljörðum króna á síðasta ári en þá voru flutt út um 2.600 tonn til Japans. Hvalkjötið fór allt út með einu skipi skömmu fyrir síðustu jól en telja má víst að hluti farmsins hafi verið eldri birgðir frá fyrri vertíðum.