Í tilkynningu frá samtökunum segir að félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi boðað fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga á fund sinn í morgun.
Þar hafi hann tilkynnt að hann hefði sent sveitarfélögum tilmæli vegna aðstoðar við útlendinga sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi og eigi ekki rétt á þjónustu á grundvelli útlendingalaga. Jafnframt hefði hann gert breytingar á reglugerð um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
Reglurnar sem ráðuneytið hefur breytt eru nr. 520/2021 og settar á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í þeim er kveðið á um aðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna þeirrar aðstoðar.
Gríðarleg vonbrigði
„Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga er þessi einhliða aðgerð félags- og vinnumarkaðsráðherra gríðarleg vonbrigði enda er hún tekin með fullri vitneskju ráðherra um algjöra andstöðu sveitarfélaganna við þessa ráðstöfun,“ segir í tilkynningunni.
Einnig kemur fram að afstaða stjórnar sambandsins liggi skýrt fyrir en á síðasta stjórnarfundi bókaði stjórn eftirfarandi:
„Stjórn sambandsins ítrekar þá afstöðu sem sambandið hefur talað fyrir undanfarnar vikur um að sveitarfélögum sé hvorki heimilt né skylt að veita þeim erlendu ríkisborgurum fjárhagsaðstoð, sem vísað hefur verið úr þjónustu ríkisins í kjölfar synjunar á umsókn viðkomandi um alþjóðlega vernd, skv. útlendingalögum.“