Yfirvöld í Armeníu segja helming íbúa héraðsins hafa flúið til Armeníu á undanförnum dögum. Í gær hafði fjórðungur íbúa flúið.
Aserar og Armenar hafa deilt um Nagorno-Karabakh um árabil og kom þar til mikilla átaka árið 2020. Aserar unnu þau átök á skömmum tíma. Héraðið er hluti af Aserbaídsjan en hefur verið stýrt af Armenum sem eru í miklum meirihluta íbúa þar, frá 1994 þegar sex ára stríði ríkjanna lauk.
Hersveitir Aserbaísdsjan réðust inn í héraðið þann 19. september og sögðu að aðskilnaðarsinnar Armena fellt tvo vegagerðarmenn og fjóra lögreglumenn með jarðsprengjum. Degi síðar gáfust sveitir aðskilnaðarsinna upp.
Aserar höfðu þá þrýst mjög á íbúa héraðsins um mánaða skeið og myndað herkví um svæðið. Ekki hafði verið hægt að senda matvæli og aðrar nauðsynjar á svæðið í einhverju magni í langan tíma.
Í frétt AP fréttaveitunnar segir að skjalið sem Shahramanyan skrifaði undir vísi til samkomulags frá því í síðustu viku um að yfirvöld í Aserbaídsjan muni leyfa íbúum héraðsins að fara sinnar leiðar án afskipta og í staðinn leggi íbúar og sveitir aðskilnaðarsinna niður vopn.
Skjalið segir einnig til um að íbúar Nagorno-Karabakh ættu að kynna sér skilyrði fyrir enduraðlögun í Aserbaídsjan og taka í kjölfarið ákvörðun um það að vera áfram í héraðinu, eða snúa aftur þangað.
Ruben Vardanyan, fyrrverandi leiðtogi ríkisstjórnar sjálfstjórnarhéraðsins, var í gær ákærður fyrir að fjármagna hryðjuverkastarfsemi, myndun ólöglegra vígahópa og fyrir að fara ólöglega yfir landamæri Aserbaídsjan.