Þetta segir Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. Hann segir engan grunaðan um árásina að svo stöddu.
Greint var frá árásinni í tilkynningu frá Samtökunum 78 um miðjan dag í gær. Var haft eftir Daníel E. Arnarssyni, framkvæmdastjóra Samtakanna 78, að árásin hefði verið gróf þar sem maðurinn hafi verið kýldur í andlit og líkama af tveimur mönnum og meðal annars tennur verið brotnar.
Maðurinn hafði þar sótt ráðstefnu sem Samtökin '78 stóðu fyrir í samvinnu við forsætisráðuneytið og Norrænu ráðherranefndina. Hátt í hundrað fulltrúum frá öllum helstu samtökum hinsegin fólks á Norðurlöndum hafði verið boðið á ráðstefnuna sem fór fram á Fosshótel Reykjavík.
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við fréttastofu í gær að rannsóknin væri á frumstigi og að eitt af því sem til rannsóknar væri, væri hvort að um hatursglæp hafi verið að ræða.