Arthur F. Engoron er dómari í einu málanna sem Trump á nú yfir höfði sér en það varðar ásakanir á hendur forsetanum fyrrverandi um að ljúga til um stærð eignasafns síns.
Fyrir hádegi í gær birti Trump mynd af Allison Greenfield, aðstoðarmanni Engoron, á samskiptamiðli sínum Truth Social en með henni á myndinni var Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni.
Gerði hann lítið úr Greenfield og kallaði hana „kærustu“ Schumer og sagði að fella ætti málið niður.
Um hádegisbil var færslan tekin út, stuttu eftir lokaðan fund þar sem fulltrúar Trump og ákæruvaldsins voru viðstaddir. Eftir hádegishlé útskýrði Engoron hvað hafði gerst og sagði persónulegar árásir á starfsmenn dómstólsins óviðeigandi og óásættanlegar.
Bannaði hann alla opinbera birtingu upplýsinga er vörðuðu starfsfólk hans, til að mynda færslur á samfélagsmiðlum og opinber ummæli. Þá sagði hann að þeir sem færu gegn tilmælum hans myndu sæta viðurlögum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem samfélagsmiðlafærslur Trump hafa verið gagnrýndar en hann hefur ítrekað verið sakaður um að hvetja til ofbeldis með rætnum orðum um andstæðinga sína.