Boðað hefur verið til samstöðumótmæla gegn sjókvíaeldi á Austurvelli klukkan þrjú í dag. Þar er gert ráð fyrir að bændur, landeigendur og almenningur muni fjölmenna.
Nýlega var greint frá því þegar þrjú þúsund og fimm hundruð frjóir norskir eldislaxar sluppu úr kví Arctic Fish í Patreksfirði og hafa þeir fundist í laxveiðiám víða um land í kjölfarið. Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga og einn skipuleggjanda, segir þjóðina hafa fengið nóg.
„Við erum í rauninni að mótmæla sjókvíaeldi og þeim aðferðum sem er beitt við sjókvíaeldi í dag. Það er í rauninni 65 prósent þjóðarinnar sem er á móti þessum mengandi iðnaði og þjóðin er í rauninni bara búin að fá nóg og þess vegna erum við að mótmæla. Þjóðin ætlar að tjá ráðamönnum hug sinn,“ segir Gunnar.
Mótmælin snúist fyrst og fremst um verndun villtra laxastofna og náttúruna. Afleiðingar síðustu slysasleppingar séu mjög alvarlega og hreinsunarstarf í fullum gangi.
„Þetta er náttúrulega ekki stærsta slepping sem hefur orðið en hegðun þessara fiska var þannig að þeir gengu í svo miklu magni upp árnar okkar þannig að það verður svo augljóst hverjar afleiðingarnar verða. Það er verið að vinna að því nótt og dag að hreinsa árnar. Þetta er eitthvað sem við getum ekki samþykkt og þessu verður bara að linna,“ segir Gunnar jafnframt.
Hann vonist til að lagasetningu í greininni verði breytt. „Auðvitað er kannski ekki hægt að loka öllum sjókvíaeldum á morgun en að þetta gerist hratt og örugglega.“