Nýsköpunarfyrirtækið Empower setti nýlega hugbúnaðarlausnina Öldu á markað. Hugbúnaðarlausninni er ætlað að útrýma eitraðri vinnustaðamenningu, tryggja inngildingu og að hjálpa vinnustöðum að ná hámarksárangri með fjölbreyttum teymum. Hugbúnaðurinn var þróaður og prófaður á Íslandi og býður upp á mælaborð, kannanir, markmiðasetningu, örfræðslu og aðgerðaráætlanir sérsniðna með gervigreind.
„Við gerum það með því að hjálpa fyrirtækjum að ná yfirsýn yfir fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Empower en það gera þau með mælaborði á heimasíðu sinni og fjölbreyttum verkefnum sem standa fyrirtækjunum til boða.

Hægt er að kalla fram gögn á mælaborði og fylgjast með þróuninni samhliða innleiðingu á breytingum. Byggt á þeim mælingum geta stjórnendur fyrirtækja og stofnana sett sér markmið og kallað eftir aðgerðaráætlunum sem eru sérsniðnar af gervigreind
Þórey hefur um árabil sinnt jafnréttisfræðslu í stofnunum og fyrirtækjum og segir að hún hafi verið farin að merkja gat á markaði. Þörf sem ekki var verið að uppfylla og telur að Alda mæti þeirri þörf.
„Þetta eru tvær eða þrjár mínútur í einu þar sem er verið að fræða um fjölbreytileika og hvernig við getum gert vinnustaðinn meira inngildandi. Þetta er frá áhrifum frá TikTok og Instagram og þannig erum við að gera efni sem er eins og það sem við sjálf viljum sækja okkur,“ segir Þórey en sem dæmi um það efni sem er í boði eru farsímaleikir þar sem fólk er spurt um upplifun sína á vinnustað, eins og hvort þau hafi þurft að breyta nafni sínu, svara fyrir allt kyn sitt eða kynþátt eða hvort það hafi þurft að fela sitt sanna sjálf vegna fordóma.
Alda nálgast viðfangsefnin á ólíkan hátt og tekur örfræðslan á sig ýmsar myndir, svo sem í formi tölvuleikja, myndbanda og teiknimyndasagna svo fátt eitt sé nefnt. Örfræðslur Öldu fjalla meðal annars um persónufornöfn, forréttindafirringu og kynslóðabil á vinnustöðum.
Þá eru allir starfsmenn beðnir um að svara spurningalista, sem er ekki rekjanlegur, þannig fyrirtækin hafi meiri upplýsingar um starfsfólk sitt og geti aðlagað fræðslu og vinnustaðinn að starfsfólki sínu.
Hugbúnaðurinn er hugsaður sem heildræn nálgun fyrir stjórnendur til að skapa heilbrigða vinnustaðamenningu með hjálp fjölbreytta teyma. Samstarfsaðilar í verkefninu eru Háskóli Íslands, Samtökin 78, og Þroskahjálp en þau aðstoðuðu meðal annars við að útbúa spurningarnar sem eru í leiknum.
Stefna á markað í Evrópu og Bandaríkjunum
Þórey segir hugbúnaðinn í stöðugri þróun. Það sé hægt að bæta við spurningum í leikinn og tungumálum þannig að efnið sé aðgengilegt sem flestum. Eins og stendur er það núna á íslensku, ensku og pólsku.
„Við erum alltaf að gæta þess að fylgjast með nýjustu rannsóknum og því nýjasta sem er að gerast til að tryggja að við séum ekki að skilja neina hópa út undan. Við erum alltaf að passa okkur á því. Það er mjög mikilvægt,“ segir Þórey en markmið Empower er að koma lausninni á markað í bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Búið er að taka fyrstu skrefin í Evrópu en stefnt er á Bandaríkin eftir áramót.
Á síðastliðnu ári tryggði Empower sér 300 milljón króna fjármögnun frá Frumtaki og Tennin. Í desember í fyrra tryggði fyrirtækið sér 50 milljón króna styrk frá Tækniþróunarsjóði. Í dag eru starfandi 15 í Alda-teyminu en það samanstendur af hugbúnaðarsérfræðingum, sérfræðingum í jafnrétti og fjölbreytni, hönnuðum, sölu- og markaðsfólki.