Skoðun

Tikkandi tímasprengja

Ástþór Magnússon skrifar

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, hafnaði aðkomu að friðarátakinu Alþingi Jerúsalem þegar ég gekk á hennar fund með erindið fyrir um 30 árum síðan. Sagði deiluna vera tikkandi tímasprengju sem best væri að koma ekki nálægt.

Sjálfskipaðir hershöfðingjar Íslands, Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir taka hins vegar allt annan pól í hæðina. Eftir að hafa dregið Ísland inn í stríð við Rússland með beinni þátttöku í vopnaflutningum stóð ekki á afdráttarlausri stuðningsyfirlýsingu við áform Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels um að jafna Gaza við jörðu. Nokkrum klukkustundum síðar var lokað fyrir rafmagn, vatn og matvæli til 2.3 milljóna íbúa Gaza sem þegar bjuggu við örbirgð undir hernámi Ísrael. Fylgt var eftir með öflugum loftárásum á almenna borgara og hundruðir barna liggja í valnum.

Ætlum við Íslendingar að gerast beinir þátttakendur í stríðsglæpum og þjóðarmorði?

Íslenskar mæður komnar út af sporinu

Undir forystu tveggja mæðra sem virðast komnar út af sporinu, er hið “friðsæla” og vopnlausa Ísland orðið öflugur talsmaður alþjóðlegs hernaðar. Íslenskir skattgreiðendur greiða fyrir flug undir vopn til Úkraínu og nú er stefnt á frekari útþenslu Íslensks hernaðar með blindum stuðningi við aðgerðir Ísraelsstjórnar gegn palestínsku þjóðinni undir forystu Benjamin Netanyahu. Ísraelsstjórn og þessi leiðtogi þeirra hafa á undanförnum árum verið til umræðu m.a. hjá S.Þ. og alþjóða sakamáladómstólnum vegna stríðsglæpa í Gaza.

Fordæmum morð og stríðsglæpi

Auðvitað fordæmum við öll morðin sem Hamas liðar hafa framið undanfarna daga í Ísrael. En við leysum ekki úr þeim glæp með stuðningi við enn frekari sturlungaöld í Palestínu. Að loka fyrir vatn og matvæli til Gaza og jafna íbúðarhverfum við jörðu er klárlega stríðsglæpur enda beinast slíkar aðgerðir gegn öllum íbúum svæðisins, almennum borgurum, börnum, gamalmennum. Fyrir þau óhæfuverk sem lítill hópur framdi er ætlunin að refsa 2.3 milljónum manns sem nú þegar lifa við örbirgð og áttu engan þátt í óhæfuverkunum gegn Ísrael.

Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn leysir ekkert

Íslendingar þekkja það frá Sturlungaöld að auga fyrir auga og tönn fyrir tönn leysir ekkert. Taka verður á grunn orsökum átakanna til að koma á varanlegum friði. Annars geta þessi átök þróast í alþjóðleg átök. Við erum þegar í stríði við Rússland. Ólíklegt er að Rússar og þeirra vina þjóðir í Mið Austurlöndum horfi aðgerðalaus uppá þjóðarmorð í Palestínu.

Tvær milljónir flóttamanna til Íslands?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð segir Ísland opna faðminn gagnvart flóttafólki frá Palestínu. Ráðgerir hún að flytja yfir tvær milljónir íbúa Gaza til Íslands til að veita Netanyahu tækifæri að jafna heimili þeirra við jörðu? Utanríkisráðherra ætlar að auka enn frekar á flóttamannastrauminn til landsins á kostnað Íslenskra skattgreiðenda í stað þess að taka á rót vandans. Nær væri að ná samstöðu þjóðarleiðtoga um einhverja skynsamlega lausn við Ísrael. Að halda áfram að kúga palestínsku þjóðina, halda henni í gíslingu, svelta fólkið í hel, flytja til Íslands eða útrýma þeim með stríðstólum er ekki varanleg lausn til friðar.

Útilokað að útrýma „Hamas“ við núverandi ástand

Hamas er andspyrnuhreyfing gegn hernámi og kúgun almennings í Palestínu sem hefur verið hrakið frá heimilum sínum af landtökufólki í Ísrael. Stjórnvöld í Palestínu og Alþjóðasamtök hafa ítrekað varað við því að það muni hafa skelfilegar afleiðingar að taka ekki á grunnorsökum andspyrnunar, hinu ólögmæta hernámi og landnámi Ísrael. Við erum nú að sjá óhugnanleg morð og gíslatökur framin af ungu fólki sem hefur alist upp í þeirri örbirgð sem Ísrael með stuðningi alþjóðasamfélagsins hefur skapað í Gaza. Útilokað er að uppræta slíka andspyrnu á meðan réttur fólksins til mannsæmandi lífs er ekki virtur. Um leið og núverandi anspyrnuliðum er útrýmt koma aðrir í þeirra stað.

Ísraelsmenn fyrstir til að beita hryðjuverkum

Þegar Íslendingar viðurkenndu Ísrael sem fullvalda ríki árið 1948 var það okkar atkvæði sem tryggði sæti þeirra hjá Sameinuðu þjóðunum. Stuðningur okkar byggði á áætlun alþjóðasamfélagsins um landamæri árið 1947. Ísrael sveik samkomulagið og hefur nú sölsað undir sig nær allt palestínskt land.

Ísrael var byggt á grunni hryðjuverka m.a. í King David hótelinu í Jerúsalem þar sem nær 100 manns létu lífið, helmingurinn Bretar en þá fóru Bretar með yfirráðin. Ísraelsmenn urðu fyrstir til að beita hryðjuverkum til að knýja fram Ísraelsríki og kenndu þannig öðrum íbúum hryðjuverk. Síðan hefur Ísrael sölsað undir sig meira og meira land með ofbeldi.

Íslendingar bera ábyrgð

Íslendingar bera mikla ábyrgð í þessu máli. Eins og staðan er núna höfum við svikið íbúa Palestínu og lagt til aðstoð við ólöglegt landnám sem hefur hrakið fólk frá heimilum sínum. Nú þarf frumkvæði héðan að þrýsta á Ísrael að standa við upprunalega samkomulagið um land skiptingu sem er eini raunhæfi byrjunarreiturinn fyrir varanlegan frið. Palenstínska þjóðin þarf að geta búið við sama öryggi sem og aðrar þjóðir í sínu eigin landi án hernáms.

Hlutverk Forseta Íslands

Eins og ég hef vakið athygli á frá árinu 1996 með átakinu “Virkjum Bessastaði” gæti Forseti Íslands gegnt lykilhlutverki til friðar í Mið Austurlöndum. Fyrir þrjátíu árum fannst landsmönnum þetta Íslandi fjarlægt. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum nú komin á bólakaf í stríðsrekstur sem taglhnýtingar bandarískra hergagnaframleiðenda. Utanríkisráðherra Íslands tók að sér að þeytast heimshorna á milli að tala fyrir auknum hernaði og hernaðarútgjöldum sem er olía á ófriðarbálið og vinnur gegn friði.

Íslendingar eiga að að tala fyrir friði. Forseti Íslands á að nota áhrif síns embættis til að koma á fót Alþingi Jerúsalem sem alþjóðlegri stofnun til friðarviðræðna og úrvinnslu mála í Palestínu og Ísrael til varanlegs friðar. Hvorki Íslendingar né aðrar þjóðir sem virða mannréttindi geta viðurkennt ríki sem þanið hefur verið út með hervaldi á kostnað barna og annarra saklausra borgara sem haldið hefur verið áratugum saman í angist og gíslingu. Slíkt ástand ógnar heimsfriðnum. Ísrael í dag er eitthvað allt annað en Íslendingar studdu 1948.

Höfundur er stofnandi Friðar 2000.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×