Ekki virðist ætla að hægja á gríðarlegri sókn Sáda í íþróttaheiminum en eyðsla opinbers fjárfestingasjóðs ríkisins, PIF, í leikmannakaup í sádísku deildinni í sumar á vart sinn líka.
Sjóðurinn keypti einnig enska fótboltafélagið Newcastle United í hitteðfyrra og hefur fjárfest ríkulega í liðinu. Ástæða þessa miklu fjárfestinga er sögð pólitísk og með framtíðartekjur ríkisins í huga.
PIF er sagður muni halda sig til hlés hvað kaup á fótboltaliðum varðar en Sádar þrátt fyrir það langt í frá hættir og vilja fjölga félögum á sínum snærum. Milliliðir verði notaðir til kaupa á félögum að svipaðri stærð og Newcastle.

Lið sem séu sögulega stór félög, eigi stóran og sterkan stuðningsmannahóp, sé í ákveðinni lægð og því mikil tækifæri til hraðrar uppbyggingar sem kosti ekki of mikið.
Valencia á Spáni og Marseille á Frakklandi eru efst á lista Sáda samkvæmt breska miðlinum Independent og uppfylla félögin ofantalin skilyrði. Zinedine Zidane er sagður vera á radar Sáda til að taka við Marseille ef kaup á félaginu ganga í gegn.
Valencia hefur munað fífil sinn fegurri og verið á niðurleið undanfarin ár vegna lítillar fjárfestingar eiganda liðsins, Peter Lim. Hann er hins vegar sagður efins um sölu á félaginu þar sem verið er að byggja nýjan völl sem geti skilað af sér miklum tekjum.
Interesting thing about Marseille, Valencia & Newcastle is that they are all port cities in need of some significant inward investment. There's been Saudi Arabian interest in their container port facilities for some time... pic.twitter.com/JnID976wCE
— Professor Simon Chadwick (@Prof_Chadwick) October 10, 2023
Simon Chadwick, prófessor við Skema-háskóla, bendir á að Sádar hafi undanfarið litið í kringum sig eftir hafnarsvæði til að fjárfesta í. Bæði Marseille og Valencia eru hafnarborgir og geti kaup á félögunum greitt leið að frekari fjárfestingum í borgunum tveimur.
Sádar geti því slegið tvær flugur í einu höggi með kaupum á félögunum tveimur.